Platón(428-348 f. Kr.) var lærisveinn Sókratesar. Hann stofnaði frægan heimspekiskóla í Aþenu, „Akademíu“, er var við lýði í meira en níu hundruð ár. Kenningarnar í samræðumhans eru meðal þess sem djúptækust áhrif hefur haft í sögu vestrænnar menningar. Platón taldi að skynsemin (logos á grísku) væri innsta eðli alheimsins og hefði stjórn á öllum hlutum. Þegar hann hugleiddi stöðuga breytingu alls sem er til, þá hóf hann að leita þess, sem er óbreytanlegt, en birtist samt í því hverfula. Það kallaði hann „frummyndir“ eða „hugsjónir“. Þegar við, sagði Platón, nefnum eitthvert hugtak, t.d. fegurð eða hugrekki, þá getum við gert það af því að til eru varanlegar myndir eða hugsjónir fegurðar og hugrekkis, sem búa eilífar og óumbreytanlegar að baki veruleikanum og birta okkur þessar eigindir. Veröldin, sem við skynjum er því aðeins endurskin ósýnilegs hugsjónaheims. Þessar hugsjónir eða frummyndir á bak við náttúrulögmálin og efnisheiminn eru hinn sanni raunveruleiki. Platón trúði því að maðurinn hefði ódauðlega sál og hún væri líkamanum æðri. Sálin er það, sem gerir okkur að því sem við erum, sagði hann. Það væri því brýnasta skylda hvers manns að auðga andann, svo að hann yrði guðunum samboðinn.