Þessum miklu vorhátíðum tveimur slógu Gyðingar saman í eina löngu áður en Jesús fæddist. Páskar voru haldnir til minningar um brottför Ísraelsmanna úr þrælahúsinu í Egyptalandi (2Mós 12.13). Þá bar upp á 14. nísan, sem var fyrsti mánuður ársins – frá miðjum mars til miðbiks aprílmánaðar á dagatali okkar nútímamanna. Páskar gengu í garð um sólsetur. Hátíð ósýru brauðanna hófst svo næsta dag, 15. hins fyrsta mánaðar, og stóð í sjö daga (3Mós 23.4-8; 4Mós 28.17-25).
Á páskum var páskalambinu slátrað, það steikt yfir eldi og etið. Blóðið úr því átti að minna á blóðið sem Ísraelsmenn ruðu á dyrastafi sína áður en Guð sendi Egyptum síðustu pláguna. Engill dauðans „gékk fram hjá“ húsum Ísraelsmanna, sem merkt voru með blóðinu, en deyddi frumburði Egypta (2Mós 12.1-27). Flata brauðsins (hins ósýrða) skyldi neytt á páskum og dagana sjö þar á eftir til minningar um það að lýðurinn yfirgaf Egyptaland í flýti. Enginn tími var til þess að láta deigið lyftast og því var brauðið bakað án gers.
Hátíð ósýrðu brauðanna varð og tilefni til þess að þakka Guði fyrir hveituppskeruna. Seinna runnu þessar hátíðar saman og voru bæði haldnar í musterinu í Jerúsalem og á heimilum fólks. Gyðingar komu til Jerúsalem hvaðanæva að úr heiminum til þess að taka þátt í hinu árlega hátíðarhaldi. Með þakklæti var minnst velgjörða Guðs í fortíð, en einnig var glaðst yfir þjóðlífi og fjölskylduböndum á yfirstandandi tíð. Á dögum Jesú samanstóð páskamáltíðin af kjöti, brauði og víni. Merking hennar var vandlega útskýrð fyrir börnunum. Og enn í dag neyta Gyðingar þessarar helgu máltíðar hvar í heiminum sem þeir búa.