Í þrettán af ritum Nýja testamentis, eða nær helmingnum, segir afdráttarlaust að Páll postuli sé höfundurinn. Á meira en helftinni af blaðsíðum eins rits til viðbótar, Postulasögunnar, lesum við um afturhvarf Páls og kristniboðsferðir hans um rómverska heimsveldið þvert og endilangt. Í Post 21.1-21 er Páll sagður fæddur í Tarsus, einni af miðstöð grískrar menntunar og menningar. En Páll var Gyðingur, og því sat hann einnig við fótskör Gamalíels lögmálskennanda í Jerúsalem og nam af honum (Post 22.3). Hið gyðingalega nafn Páls var Sál. Hann tilheyrði flokki farísea (Fil 3.5), en þeir álitu að Guði yrði þjónað best með fullkominni hlýðni við lögmál Móse.

Þar eð Páll var eldheitur farísei hóf hann að ofsækja lærisveina Jesú (Post 8.1-3; 9.1,2). Hann reyndi af alefli að ráða niðurlögum þeirrar hreyfingar, sem kölluð var „vegur Drottins.“ En hann tók algjörum sinnaskiptum þegar Kristur upprisinn birtist honum í sýn og valdi hann til þess að boða fagnaðarerindið öllum mönnum (Post 9.1-18; Gal 1.11-17; 1Kor 9.1). Að liðinni þriggja ára veru í Damaskus (Gal 1.18) og eftir að hafa átt fund með leiðtogum safnaðarins í Jerúsalem (Gal 1.18-2.10) hóf Páll að boða heiðingjum fagnaðarerindið um Jesú Krist.

Af bréfum Páls og frásögn Postulasögunnar má ráða, að næstu fimmtán árin prédikaði hann Krist og liðsinnti lærisveinum í Litlu-Asíu og Grikklandi við að koma á fót kristnum söfnuðum. Þannig lagði hann hönd á plóg í Efesus, Kólossu, Þessaloníku, Aþenu og Korintu. Hann rökræddi við heimspekinga (Post 17) og leiddi Gyðingum fyrir sjónir að Jesús væri uppfylling vona þeirra (Post 18). Hann varð fyrir ofsóknum og var hnepptur í varðhöld. Hann reyndi að sýna rómverskum valdsmönnum fram á, að heimsveldi þeirra væri engin hætta búin af Kristi (Post 24.25).

Það var trú Páls, að Jesús hefði verið af Guði sendur til þess að auðsýna hlýðni og leggja líf sitt í sölurnar sem fórn og lausnargjald fyrir syndir mannanna (Róm 3.24,25). Jesús vildi sameina í einn söfnuð alla menn, bæði Gyðinga og heiðingja, hinn nýja lýð Guðs. Guð sendi líka anda sinn til þess að vísa lærisveinum Jesú veginn og uppörva þá, svo að þeir þjónuðu Guði með því að breiða út gleiðboðskapinn og elska hver annan. Páll sagði, að ávöxtur andans væri kærleiki, gleði og friður (Gal 5), og auk þess hæfni til þess að vinna Guðs verk hér í heimi (1Kor 14).

Páll óskaði þessað þjást með Kristi að ganga í dauðann líkur honum, og hann bað þess að sér mætti auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum (Fil 3.10,11). Hann vænti endurkomu Jesú frá himni og mundi hann þá „breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans“ (Fil 3.21). Þá mundi Jesús Kristur bera endanlegt sigurorð af synd og dauða (1Kor 15.50-57).