Móse fæddist í Egyptalandi, en foreldrar hans voru Hebrear af ætt Leví. Dóttir faraós Egyptlandskonungs tók drenginn að sér þriggja mánaða og ól hann upp (2Mós 2.1-10). Þegar Móse var orðinn fulltíða blöskraði honum grimmileg meðferð Egypta á löndum sínum. Fór svo, að hann varð egypskum manni að bana og flýði þá til Midíanslands. Þar fékk hann boð um það frá Drottni, að hann skyldi fara og leiða Ísraelsmenn út úr þrælahúsinu í Egyptalandi (2Mós 3.1-4). Móse gerði eins og fyrir hann var lagt. Hann hélt aftur til Egyptalands og sagði faraó að Drottinn mundi senda plágur yfir hann og Egypta, ef hann leyfði ekki Ísraelsmönnum að fara heim í land sitt. Þar kom að Ísraelsmenn flýðu frá Egyptalandi og komust fyrir kraftaverk þurrum fótum yfir Rauðahafið (2Mós 5.15).
Móse var mikill foringi og gerði mörg tákn og undur (2Mós 15.22-25), en starfaði og margt fleira. Hann var þannig hinn mikli “löggjafi” þjóðarinnar, því að Drottinn fól honum að leggja fyrir fólkið lögmálið (meðal annars boðorðin 10), sem upp frá því skyldi ákvarða, hversu það hagaði lífi sínu og guðsdýrkun. Gerð er nákvæm grein fyrir þessum lögum í Annarri Mósebók (20-40), Þriðju Mósebók, Fjórðu Mósebók og Fimmtu Mósebók. En Móse var líka spámaður (5Mós 34.10; 12.7) og prédikaði fyrir lýðnum og flutti þá jafnt dómsorð Guðs og fyrirheit hans (5Mós 7.12-15).
Móse er aldrei kallaður “prestur” og þó gaf Drottinn honum fyrirmæli um það, hvernig reisa ætti samfundatjaldið og koma fyrir hinum heilögu áhöldum þess, og hversu fram skyldu fara fórnir og guðsdýrkun Ísraelsmanna. Móse bað líka til Drottins í nafni allrar þjóðarinnar (4Mós 14.11-20) og gékk inn í samfundatjaldið til fundar við Drottinn, sem talaði við Móse (2Mós 33.7-11).
Þá réttaði Móse í málum manna og valdi dómara er úrskurða skyldu í deilum og dæma um sekt eða sakleysi eftir ákvæðum og lögum Drottins (2Mós 18.13-26). Hann fór og fyrir her Ísraelsmanna í orrustum þeirra við óvinaþjóðir á leiðinni til hins fyrirheitna Kanaanslands (4Mós 21.21-35).
Drottinn ákvað, að Móse skyldi ekki fá að leiða fólkið inn í landið, sem hann gaf því til eignar (4Mós 20.12; 5Mós 3.23-29), en áður en hann andaðist fékk hann að horfa yfir Jórdandalinn af Nebófjalli og líta Kanaansland (5Mós 32.48-52).
Í Nýja testamenti er einkum rætt um Móse í hlutverki “löggjafans” (Matt 19.7; Jóh 1.17; 2Kor 3.7-14), en þar er hann líka trúarhetja (Heb 3.2; 11.23-28) og spámaður (Post 3.22,23).
Stórviðburðir í ævi Móse
Atburðir: | Ritningarstaðir: |
Fæddur Móse í Egyptalandi | 2Mós 2.1-10 |
Móse drepur Egyptann og flýr til Midíanslands | 1Mós 2.11-15 |
Móse kvænist Sippóru, konu frá Midíanslandi | 2Mós 2.21,22 |
Drottinn talar til Móse úr logandi þyrnirunna | 2Mós 3.1-4.17 |
Móse og Aron ganga fyrir Egyptalandskonung og Drottinn sendir plágurnar tíu | 2Mós 5.1-12.30 |
Móse leiðir Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og yfir Rauðahafið | 2Mós 12.31-42; 13.17-14.31 |
Drottinn gerir beiska vatnið í Mara sætt | 2Mós 15.22-25 |
Drottinn seður Ísraelsmenn með himnabrauði (manna) | 2Mós 16.1-36; 4Mós 11.4-9 |
Drottinn lætur drykkjarvatn spretta fram úr steini | 2Mós 17.1-7; 4Mós 20.1-13 |
Drottinn felur Móse á Sínaífjalli að leggja fyrir þjóðina boðorðin tíu | 2Mós 20.1-17; 5Mós 5.1-21 |
Móse tekur við lögum og réttarreglum um daglegt líf safnaðar og þjóðar | 2Mós 21.1-23.9; 4Mós 30.1-16; 35.9-36.13; 5Mós 15.1-18; 16.18-20; 17.8-20; 19.1-25.16 |
Móse tekur við fyrirmælum um tjaldbúðina, helgihaldið og guðsdýrkunina | 2Mós 25.1-31.18; 35.1-40.38; 3Mós 1-27; 4Mós 19.1-22; 28.1-29.40; 5Mós 12.1-14.29; 15.10-16.17 |
Fólkið býr til skurðgoð í mynd gullkálfs og Móse mölvar steintöflurnar með boðorðunum tíu | 2Mós 32.1-35; 5Mós 9.6-29 |
Drottinn felur Móse boðorð að leggja fyrir þjóðina að nýju | 2Mós 34.1-9; 5Mós 10.1-5 |
Ljómi stendur af andliti Móse því að hann hafði talað við Drottin | 2Mós 34.19-35 |
Drottinn býður Móse að gera ættbálk Leví að prestum, er vinni öll verk í tjaldbúðinni | 4Mós 3.5-13; 8.5-26; 18.1-32; 5Mós 10.8,9 |
Kóra, Datan og Abíram rísa gegn Móse | 4Mós 16.1-40 |
Móse býr til eirorm og þeir læknast sem bitnir höfðu verið af eitruðum höggormum | 4Mós 21.4-9 |
Drottinn leyfir Móse ekki að fara inn í Kanaansland | 5Mós 3.23-29; 32.48-52 |
Drottinn leggur fyrir Móse hið mikla boðorð | 5Mós 6.1-9 |
Móse blessar ættkvíslir Ísraels | 5Mós 33.1-29 |
Móse deyr í Móabslandi | 5Mós 34.1-8 |