Markaðstorg var í hverju þorpi í Palestínu á tímum Jesú. Á því voru tjöld og básar þar sem matvæli og krydd voru falboðin, vegin og seld. Þarna var fjölmargt á boðstólum: hveiti og bygg, fiskur og brauð, ólífur og fíkjur.
Á markaðstorginu bar sitthvað fyrir augu og eyru og þar brá fyrir vitin miklum og sterkum þef. Kaupmennirnir hrópuðu á fólk til þess að reyna að fá það til þess að skoða vöruna, opna pyngjuna og kaupa varninginn. Hátt lét í skepnunum, sem voru til sölu: sauðfé jarmaði og geitur kumruðu, það var kurr í dúfum, garg í gæsum og klak í hænsnum. Rammur daunn af dýrunum og lokkandi ilmur af bakstri, steik og kryddi fyllti loftið.
En markaðstorgið var líka samkomustaður. Þangað fór fólk til þess að sýna sig og sjá aðra, leita að atvinnu eða spjalla saman, eins og sést af dæmisögu Jesú af verkamönnunum í víngarðinum (20.1-16). Mennirnir í sögunni biðu þess á torginu að landeigandi kæmi og réði þá í vinnu.
Á föstudögum, daginn næsta á undan hvíldardeginum, var að vonum mikill handagangur í öskjunni á markaðstorginu. Þá komu gyðingar til þess að kaupa það sem til þurfti að halda hátíðlegan helgidaginn, sem hófst við sólsetur á föstudagskvöldi og lauk þegar sól gékk til viðar á laugardeginum eftir.