Antisþenes (444-370 f. Kr.) hét einn nemenda Sókratesar.  Sá er talinn upphafsmaður kýnísku heimspekinnar í Aþenu. Nafnkunnastur kýníka var annars Díógenes frá Sínópe, borg við strendur Svarta hafsins.  Hann áleit að dyggðugt líferni færði hamingju, en hún væri ekki komin undir hverfulum hlutum eins og völdum, auðæfum eða góðri heilsu. Kýnísku heimspekingarnir höfðu ekkert fast aðsetur, heldur ferðuðust úr stað í stað, eins og sumir postulanna síðar.  Skilja má af 17. kapítula Postulasögunnar, versunum 16 til 34, að Aþeningar hafi haldið Pál postula verið föruheimspeking, þegar hann prédikaði á Aresarhæð. Ekki er fyllilega ljóst, hvers vegna hreyfingin fékk nafnið Kýníkar (gríska orðið „kýon“ þýðir hundur).  Ef til vill minntu kýníkarnir á hunda í því hve nægjusamir þeir voru, en um leið á stöðugum þeytingi og auk þess grimmir í gagnrýni sinni á það sem þeir álitu spillt samfélag.  En kannski vísar orðið til nafnsins „Kýnosarges,“ sem var skóli þar sem kýníkar komu saman að ræða heimspeki.