Í fornöld var algengt að festa sakamenn upp á kross í refsingarskyni og til þess að niðurlægja þá fyrir allra augum. Á dögum Jesú tóku Rómverjar menn af lífi með því að krossfesta þá. Dauðamaður var bundinn fastur með reipum á trékross eða að öðrum kosti negldur á hann. Sumir krossar voru í laginu eins og bókstafurinn T (Antóníusarkrossinn), aðrir (t.d. Latneski krossinn) líkari reikningsmerkinu plús (+). Ótíndir glæpamenn, óhlýðnir þrælar og forsprakkar uppþota voru venjulega krossfestir.
Eftir að maður að hafði verið dæmdur til krossfestingar, var hann látinn bera krossinn á aftökustaðinn, þó stundum aðeins þverslána. Oft voru menn sviptir klæðum og barðir áður en þeir voru negldir upp á krossinn. Handleggirnir voru festir á þverslána. Í þessari sársaukafullu stellingu átti hinn krossfesti erfitt með andardrátt og þar kom að hann kafnaði. Þess voru dæmi, að menn lifðu allt að viku á krossinum.
Þeir sem brutu alvarlega gegn lögum eða trúarbrögðum gyðinga voru grýttir til dauða. Hópur manna neyddi hinn ákærða til þess að leggjast niður og hratt honum svo fram af hömrum. Síðan var velt yfir hann steinhnullungum uns hann var dauður og lík hans loks hulið með grjóti.
Ef Jesús hefði brotið lög gyðinga hefði hann verið grýttur. En hann var kærður fyrir að efna til uppþots gegn rómversku stjórnvöldunum með því að láta viðgangast að menn kölluðu hann “konung gyðinga”. Þessi konungstitill var sakargiftin, sem rituð var yfir höfði hans á krossinum (27.37).
Guð vann sigur á dauðanum með því að reisa Jesú aftur til lífs eftir krossfestinguna. Því táknar krossinn æ síðan mátt Guðs til þess að fyrirgefa syndir og glæða með mönnum nýtt líf (1Kor 1.18-24).