Hveiti- og byggbrauð var daglegur kostur fólks á tímum Jesú.  Til þess að rækta korn plægðu bændur jörðina áður en þeir sáðu.  Hér hefur verið lagt ok á tvo uxa sem draga plóginn en bóndi gengur á eftir og hefur lagt hönd á hann.  Eftir þetta var sáð niður korninu, þótt það væri raunar stundum gert áður en plægt var.  Sáð var eftir fyrstu rigningar á haustin.  Bygguppskeru mátti vænta kringum mánaðarmót apríl og maí, en hveitisins um mánuði seinna. Þegar uppskorið var, voru stilkarnir slegnir með sigð af tinnusteini eða járni, en svo bundu menn kornið í bundin svo auðveldara væri að bera það heim á þreskivöllinn.