Merking orðsins „ást“ hefur ýmis blæbrigði í Gamla testamenti. Fyrst er að nefna ástina á milli karls og konu (1Mós 24.67; 29.20; Ljl 1-8). En það ræðir einnig um kærleika með ættingjum (1Mós 25.27,28; Rut 1.1-18), vinum (2Sam 1.26) og með húsbændum og þrælum (5Mós 15.16,17). Þá eiga Ísraelsmenn að elska Guð (5Mós 6.5) og náungann, að ógleymdum vinum og venslamönnum (3Mós 19.18), en auk þess útlendinga og aðkomumenn (5Mós 10.17-19).
Hinir yngri spámenn og ljóðskáld líktu kærleikanum, sem Guð bæri í brjósti til þjóðar sinnar, við ástir eiginmanns og eiginkonu. Lýsingar á ástarbríma brúðguma og brúðar í Ljóðaljóðunum voru skildar svo, að átt væri við ást Guðs á þjóð sinni. Hósea spámaður sagði að óhlýðni Ísraelsþjóðarinnar við Guð mætti líkja við konu, sem væri manni sínum ótrú (Hós 2), en Guð mundi að eigin frumkvæði koma á sáttum (Hós 3). Hósea sagði raunar líka, að kærleikur Guðs væri eins og ást foreldris á barni sínu (Hós 11). Eins sagði Jesaja spámaður kærleika Guðs á þjóðinni jafnast á við móðurástina (Jes 49).
Guðspjöllin herma frá því, að Jesús hafi kennt lærisveinum sínum, að hverjum manni beri að hlýða boðorðunum um að elska Guð og elska náungann eins og sjálfan sig (Mrk 12.28-33; Matt 22.34-40). Í Lúkasarguðspjalli er hann spurður að því, hvað þetta þýði, og svarar þá með því að segja sögu af Samverja, sem kemur til hjálpar ókunnugum manni, sem fallið hafði í hendur ræningjum (Lúk 10.29-37). Í Jóhannesarguðspjalli er enginn munur á elskunni, sem Guð ber til heimsins (Jóh 3.16) og þeim kærleika, sem hver er skyldugur að auðsýna öðrum í söfnuði Krists (13.34,35). Í frægri fjallræðu sinni segir Jesús lærisveinunum, að þeir eigi meira að segja að elska óvini sína, þar eð þeir séu og elskaðir af Guði (Matt 5.43-48).
Páll postuli segir, að Guð hafi af einskærum kærleika sent Krist til þess að deyja fyrir mennina (Róm 5.5-8) og ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans (Róm 8.31-39). Páll segir líka, að heilagur andi sé að verki í söfnuðinum og komi því til leiðar, að kærleikur Guðs verði augljós í lífi manna (Gal 5.22). Í hinum fræga óði sínum til kærleikans segir Páll ennfremur, að kærleikurinn sé ekki hugarástand eða tilfinning, heldur sýni hann sig umfram allt í breytninni við náungann og kalli því ávallt á róttæka viðhorfsbreytingu (1Kor 13). Kærleikurinn skal vera leiðarstjarnan í lífi manna (1Kor14.1; Róm 13.8-10).
Í Nýja testamenti er agape gríska orðið, sem oftast er þýtt á íslensku með „kærleikur.“ Merking orðsins er „fórnfús, sjálfsafneitandi kærleikur.“ Tvö grísk orð önnur eru líka þýdd með „kærleikur.“ Annað þeirra er eros, munúð elskenda, holdleg ást. Það er hvergi notað í Nýja testamenti. Hitt er sögnin „phíleó“, að þykja vænt um, og getur átt við um vini og ættingja (Matt 10.37), eða „að hafa mætur á eða sækjast eftir einhverju“, eins og t.d. góðum orðstír (Matt 6.5; Lúk 20.46). En bæði í Gamla og Nýja testamenti er lýst þeim kærleika Guðs, sem er þolinmóður, góðviljaður og hjálpsamur, líka gagnvart óvinum. Þannig birtist Guð í Kristi, hinni óviðjafnanlegu gjöf og fyrirmynd, og þannig ber og mönnum að koma fram hverjum við annan.