Í Ísrael til forna voru einkum þrenns konar ákvæði um hreinleika. Í fyrsta lagi ræddi um það, sem var laust við óhreinindi eða mengun. Í annan stað skyldi ekki komið við neitt það, sem trúrækinn maður mátti ekki snerta. Í þriðja lagi skyldu menn forðast hvaðeina, sem illt var eða skaðaði aðra ellegar gékk í gegn boðorðum Guðs.
Samkvæmt lögmáli Móse gat ýmislegt verið, sem taldist hreint eða óhreint. Menn gátu orðið óhreinir af ákveðnum sjúkdómum, þegar þeir snertu lík, eða ef þeir átu vissa fæðu, eins og t.d. svínakjöt eða tilteknar fisktegundir. Lögmálið mælti stranglega fyrir um það, hvað menn skyldu forðast til þess að verða ekki óhreinir (sjá einkum 3Mós 11-18). Eins var að finna í lögmálinu reglur um það, hvernig menn gætu orðið hreinir á nýjaleik með því að doka við um sinn og þvo sér síðan og færa hina réttu fórn.
Prestarnir kenndu fólki að gera greinarmun á því, hvað var hreint og hvað óhreint. Sumar þjóðir aðrar í Austurlöndum nær trúðu því, að illir andar tækju sér bústað í vissum dýrategundum og plöntum. Þessi hjátrú kann að hafa haft áhrif á afstöðu Ísraelsmanna til þess, hvað væri óhreint. En meðal nárgrannaþjóðanna var víða litið svo á, að sum dýr, eins og t.d. svín, væru beinlínis heilög. Lögmál Móse bannaði Ísraelsmönnum aftur á móti að eta eða svo mikið sem snerta kjöt af þessum dýrum.
Venjuleg atvik í hversdaglífi fólks, eins og t.d. kynmök (1Sam 21.4; 2Mós 19.4-15), barnsfæðingar (3Mós 12) og andlát (4Mós 6.6) voru álitin undir áhrifavaldi óhreinna, annarlegra afla. Það var þannig litið mjög alvarlegum augum, ef einhver komst í snertingu við lík; sá hinn sami var umsvifalaust talinn óhreinn og þurfti hið bráðasta hreinsunar við.
Einu sinni á ári, á friðþægingardaginn, hreinsaðist allur lýðurinn. Þá var öðrum geithafri af tveimur fórnað og blóði hans stökkt á sáttmálsörkina í því allrahelgasta helgasta í musterinu og þannig friðþægt fyrir alla Ísraelsmenn. Á höfuð hins hafursins (syndahafursins) lagði æðsti presturinn báðar hendur sínar, játaði yfir honum öll afbrot þjóðarinnar, lagði þau á hafurinn og rak hann síðan út í eyðimörkina (3Mós 16: 23.26-32; 4Mós 29.7-11). Sjá „Dagatal Gyðinga og hátíðar þeirra“ á bls. 926 og töfluna „Fórnir og fórnargjafir“ á bls. 211.
Í frumkirkjunni skildu menn snemma, að fórnin sem hreinsaði menn af syndum þeirra var dauði Jesú Krists (Mrk 10.45). Blóði Jesú, blóði sáttmálans, hefði verið úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda (Matt 26.28), og það hreinsaði lærisveina hans af allri synd (1Jóh 1.7). Hinir fyrstu kristnu menn trúðu því statt og stöðugt, að dauði Jesú gerði lærisveinum hans kleift að ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, sem hreinsuð hefðu verið og væru því laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hefðu verið í hreinu vatni (Heb 10.19-22).