Kærleikur Guðs frelsar.
Orðið “hjálpræði” táknar í Biblíunni allt það sem Guð hefur gert og gerir enn til þess að frelsa mennina frá synd, sorg, sjúkdómum, dauða og illum öflum. Guð vill að við mennirnir högum lífi okkar eins og hann hugsaði sér í öndverðu, þegar hann skapaði mann og heim (1Mós 1.2). Þegar syndin kom í heiminn (1Mós 3) þurftu mennirnir á hjálpræði að halda, frelsun undan valdi dauðans.
Ísraelsmenn vissu að hönd Guðs hjálpaði þeim (2Mós 12.17; Slm 44.1-8; 78; 5Mós 6.20-24). Guð leiddi þjóðina út úr þrælahúsinu í Egyptalandi og með fulltingi hans sigruðu þeir óvini sína og námu Kanaansland. Mörgum öldum síðar frelsaði Guð suma þeirra er hann leyfði þeim að snúa aftur heim eftir að þeir höfðu verið herleiddir til Babýlon (Jes 43.14-16). Lesa má nánar um þessa atburði í “Frá Jósúa til útlegðarinnar: Ísraelsmenn í fyrirheitna landinu” á bls. 906 og “Eftir útlegðina: Lýður Guðs snýr aftur heim til Júdeu” á bls. 913.
Guðsdýrkun Ísraelsþjóðarinnar snýst að verulegu leyti um allt það sem Drottinn hefur gert til þess að forða henni frá andstreymi og þjáningum (5Mós 26.6-10). Fórnir voru færðar í musterinu til þess að sýna hve mjög fólkið iðraðist að hafa brotið gegn lögmáli Drottins, en jafnframt voru þær bæn um réttlætingu Guðs, svo að þjóðin mætti áfram vera heilagur eignarlýður hans.
Guð hét því líka að gefa þeim og gjörvöllum heimi nýtt líf, færa frið og alla blessun (Jes 65.17-25). Spámenn Ísraels sögðu að frelsari mundi koma í heiminn og boða fagnaðarerindi þeim sem sorgmæddir væru, fangar eða fátækir. Þessi frelsari mundi og stofna nýjan sáttmála við lýð Guðs að viðstöddum öllum þjóðum heims (Jes 61.1-11). Og Guð mundi sigrast á öflum hins illa og á hans ríki yrði enginn endir (Dan 7.27).
Nýja testamenti ræðir um Jesú sem þann er “frelsa mun lýð sinn frá syndum þeirra” (Matt 1.21). Hann er sá sem kominn er “til þess að leita að hinu týnda og frelsa það” (Lúk 19.10). Hann læknar og boðar fyrirgefningu Guðs og er þetta hvort tveggja til marks um það hjálpræði sem hann flytur (Lúk 7.50; 19.9; Mrk 5.34). Dauði Jesú er mönnum hjálpræði og frelsar þá undan syndum þeirra (Mrk 10.45). Með því að rísa upp frá dauðum sigrar hann dauðann og frelsar okkur undan valdi hans (Róm 4.25; 5.10).