Þegar rætt er um fátæka í Biblíunni, er átt við bágstadda og þurfandi, þar á meðal ekkjur og munaðarlausa, flóttamenn og öreiga (5Mós 15.11;  Slm 82.3,4).  Fátæklingar voru þeir og kallaðir, sem álitnir voru lítils nýtir, jafnvel í augum óvina Ísraelsmanna (Jer 40.7,8;  52.15). Í lögmáli Móse var skýrt kveðið á um það, að lýður Guðs skyldi annast um snauða með því að víkja þeim peningum, klæðnaði og matföngum (2Mós 22.22-27;  5Mós 16.9-15; 24.12-15).

Drottinn Guð Ísraels hefur mætur á fátækum mönnum, heimilislausum og aðþrengdum og snýr við hag þeirra þá minnst vonum varir, eins og fram kemur í frásögninni af Hönnu og bæn hennar (1Sam 2.7,8).  Amos spámaður átaldi Ísraelsmenn fyrir það, að þeir væru vondir við fátæka og kæmu í veg fyrir að þeir næðu rétti sínum (Amos 5.11-13).  Hann sagði, að réttlætið væri alveg jafn mikilvægt, ef ekki mikilvægara en guðsþjónustur og sálmasöngur (Amos 5.21-24).  Hann sagði líka, að Drottinn mundi refsa harðlega þeim sem hefðu af fátækum og prettuðu þá (Amos 8.4-12).  Því var trúað, að Drottinn hefði látið breytni leiðtoganna koma niður á þjóðinni (Es 22.29) af því að þeir létu hjá líða að sinna fátækum og bónbjargamönnum og urðu ekki við því að fella niður skuldir þeirra (5Mós 15.1-11).  Í spekiritum Ísraels er staðhæft, að betra sé að vera fátækur og réttlátur heldur en auðugur og óguðlegur (Slm 37.16), og líkna fátækum sé sama og að lána Drottni, sem muni endurgjalda ríkulega (Okv 19.17).

Jesaja spámaður ræddi um „þjón Drottins“, sem Guð útveldi („smyrði“) til þess að flytja fátækum gleðilegan boðskap (Jes 61.1-4).  Jesús sagði, að Guð hefði sent sig til þess að þetta fyrirheiti mætti rætast (Lúk 4.16-21). Hann umgékkst þá, sem trúarleiðtogarnir fyrirlitu, tók þeim opnum örmum og bauð velkomna í samfélag vina Guðs.  Hann kvað fátæka sæla (Lúk 6.20,21) og yrði þeim boðið inn að ganga til fagnaðar Guðs ríkis.

Þegar Páll postuli lagði af stað með fagnaðarerindið á vit heiðingja, var það eitt til skilið af hálfu postulanna í Jerúsalem, að hann minntist  hinna fátæku (Gal 2.10).  Eins lögðu kristnir menn í Jerúsalem eigur sínar í sameiginlegan sjóð, svo að unnt væri að sjá fyrir þörfum fátækra (Post2.44,55; 4.32).