Orðin helvíti, helja og hel eru þýðingar á hebresku orðunum Gehinnom og Sheol og gríska orðinu Hades. Hebreska orðið Gehinnom þýðir Hinnomsdalur. Það er þröngur dalur sunnan og vestan við Jerúsalem og liggur frá Kedrondalnum í austri. Á tímum konunganna í Ísrael var þarna blótstaður er nefndist á arameískuTófet sem þýðir “eldstó.” Þegar Akas og Manasse voru konungar var guðinum Mólok fórnað þar börnum og þeim kastað á eld (3Mós 18.21; 20.2-5; Jer 32.35). Vegna þeirra voðaverka sagði Jeremía spámaður að þeir dagar mundu koma þegar dalurinn yrði kallaður Drápsdalur (Jer 7.31,32; 19,6).
Síðustu tvær aldirnar fyrir Krists burð varð þeirra hugmynda vart meðal sumra lærimeistara gyðinga, að hlutskipti vondra manna eftir dauðann mætti líkja við hinn brennandi Hinnomsdal. Gríska orðið yfir þennan vonda stað er Gehenna. Í Nýja testamenti er orðið Gehenna(helvíti) ævinlega notað um stað (þó fremur ástand) þar sem illvirkjum er refsað í eldslogum. Merking þess er því önnur en hebreska orðsinsSheoleða gríska orðsins Hades. Þau orð bæði eiga fremur við dauflegan og dimman áfangastað þeirra dauðu (Job 20.23; Es31.16-18; Post 2.27) eða staðinn þar sem hinir dauðu bíða dóms (Opb 20.13). Einhvers staðar undir jörðinni er Sheol (Hades). Þar finnur enginn fyrir neinu; þar ríkir órofin þögn og þar vita menn hvorki í þennan heim né annan.
Í Nýja testamenti er helvíti (Gehenna) staður,þar sem meingerðamenn taka út refsingu Guðs í eldi, sem slokknar ekki til eilifðarnóns (Matt 5.22; Lúk 16.23,24; Opb 20.14,15). Þessu ástandi er lýst sem eldsofni (Matt 13.42,50), óslökkvanda eldi (Mrk 9.43,44), eldsdíki (Opb 20.14,15) og eilífum eldi sem búinn er djöflinum og árum hans (Matt 25.41). Jesús varaði við því, að tilteknar syndir drýgðar gætu orðið til þess að menn myndu fara til helvítis (Matt 23.13-15, 29-33; Mark 9.45-48; Lúk 12.5), og í Jakobsbréfi er varað sérstaklega við tungunni, þessu líffæri, sem við notum til þess að tala með. Hún sé tíðum óhemja, sem enginn maður geti tamið, full af banvænu eitri, tendruð af helvíti (Jak 3.6).