Heilagur andi er Guð að verki í heiminum. Í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) segir frá því, er andi Guðs skapaði heiminn (1Mós 1.2) og gaf líf plöntum, dýrum og mönnum (Slm 104.27-30). Andi Guðs kom yfir leiðtoga Ísraels og leiðbeindi þeim, bæði Móse og öldungunum sjötíu og tveimur sem kjörnir voru honum til aðstoðar (4Mós 11.24-30), Gídeon (Dóm 6.34) og konungunum Sál og Davíð (1Sam 10.6-13; 11.6; 16.13; 2Sam 23.1-4). Bæði fyrri spámenn eins og Elía og Elísa (2Kon 2.9-15) og hinir síðari á borð við Jesaja og Esekíel (Jes 61.1; Es 22.; 3.12-27) voru innblásnir af andanum og fluttu lýðnum boð frá Guði.
Drottinn hét því að leggja fólkinu anda sinn í brjóst og koma því til leiðar að það hlýddi boðorðum hans (Jes 59.21; Es 36.24-29). Jesaja spámaður minnti þjóðina á að Guð hefði með heilögum anda stýrt sögu hennar frá öndverðu (Jes 63.10-14). Hryggi þjóðin heilagan anda, þá refsar Guð henni (Jes 63.10), en hlýði hún andanum mun Drottinn hreinsa hana og gefa henni nýtt hjarta (Es 36.26,27). Von hennar til framtíðar er sú, að andinn helgi endurnýi hana og samband hennar við Guð (Jes 44.3-5; Es 11.19,20) og sendi henni vitran og réttlátan konung (Jes 11.2-5).
Höfundar Nýja testamentis segja Jesú vera þann sem spámennirnir sögðu að koma mundi. Lúkas hermir frá því að engill hafi boðað fæðingu Jesú og sagt Maríu móður hans að heilagur andi kæmi yfir hana og kraftur hins hæsta mundi yfirskyggja hana og barnið því verða kallað heilagt, sonur Guðs (Lúk 1.35). Þessi tengsl föður og sonar urðu og ljós við skírn Jesú, þegar „heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa“ (Lúk 3.22). Við upphaf starfs síns las Jesús fyrir söfnuð á hvíldardegi kafla úr spádómsbók Jesaja og sagði anda Drottins hafa komið yfir sig og útvalið sig til þess að flytja fátækum gleðilegan boðskap (4.16-19). Þótt óvinir hans sökuðu hann um að hafa óhreinan anda (Mrk 3.18-30), sagðist hann sjálfur reka illu andana út með Guðs anda, en ekki með fulltingi djöfulsins (Matt 12.28). Höfundur Matteusarguðspjalls segir Jesú vera hinn „útvalda þjón“ sem Jesaja sagði að Guð mundi láta anda sinn koma yfir og hann boða þjóðunum rétt (Matt 12.15-21; sjá og Jes 42.1-4).
Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesús lærisveinum sínum að hann muni senda þeim heilagan anda, huggara og hjálpara, sem muni kenna þeim allt og minna þá á allt það sem hann hafi sagt þeim og leiða þá í allan sannleikann (Jóh 14.15-17, 25,26; 15.16; 16.4-15).
Eftir að Jesús dó og var reistur upp frá dauðum, lét hann hann lærisveinua sína sjá sig upprisinn í 40 daga. Hann sagði þeim að þeir mundu verða skírðir með heilögum anda (Post 1.3-5) og er andinn kæmi yfir þá, mundu þeir öðlast kraft til þess að boða fagnaðarerindið um hann „allt til endimarka jarðarinnar“ (Post 1.8). Það var á hvítasunnudag að lærisveinarnir fylltust allir heilögum anda þar sem þeir voru saman komnir í Jerúsalem (Post 2.1-12). Postulasagan segir svo frá því, að heilagur andi styrkti lærisveinana með mörgu móti og gaf þeim djörfung til þess að prédika og boða fagnaðarerindið um Jesú öllum þjóðum (t.d. Post 4.8,31; 6.3-5; 8.29; 13.2-9; 20.22-28).
Páll postuli kennir, að það sé heilagur andi sem gefur frelsi hinum nýja lýð Guðs og breytir lífi hans svo að hann öðlast frið og verður Guði hlýðinn (Róm 8.1-17). Andinn veitir skilning á vilja Guðs, kennir mönnum að lifa saman í kærleika, eflir með þeim hugboð um það sem framtíðin ber í skauti sér og hjálpar þeim til þess að inna af hendi störfin mörgu í söfnuðunum (1Kor 12.-14). Andinn glæðir kærleikann og kemur til leiðar því líferni sem Guð væntir af börnum sínum (Róm 4.9-13; Gal5.22,23).