Víða í helgiritum Gyðinga, sem kristnir menn kalla Gamla testamenti, er Ísraelsþjóðin nefnd sonur Guðs eða barn hans (2Mós 4.22,23; Jer 31.19,20; Hós 11.1), en ónefndur konungur Ísraels hlýtur beinlínis titilinn “Guðs sonur” (Slm 2.7). Guð kvaðst gera Davíð konung að “frumburði mínum, að hinum æðsta meðal konunga jarðar” (Slm 89.28). Davíð er líka sagt að eitt barna hans muni verða sonur Guðs (2Sam 7.14). Síðar tóku spámennirnir að kalla hina trúföstu meðal Ísraelsþjóðarinnar börn Guðs (Jes 43.6; Hós 1.10).
Í yngri helgiritum Gyðinga er Messías nefndur Guðs sonur (í Enoksbók 105.2 og og apókrýfa (“leynilega, óekta”) ritinu 2. Esdrasbók 7.28-29). Sjá nánar um þessar bækur í “Hvaða rit tilheyra Biblíunni?” á bls. 15.
Í guðspjöllum Nýja testamentis er Jesús hinn eini sanni Guðs sonur, eins og rödd af himnum kunngjörir við skírn hans (Mrk 1.11). Trúarleiðtogarnir sem vildu hann feigan spurðu hann hvort hann væri Guðs sonur og svaraði hann því játandi (Mrk 14.61,62). Djöfullinn veit að Jesús er Guðs sonur (Lúk 4.1-12) og illu andarnir sem hann rak út vita það líka (Mrk 3.11; 5.7).
Þyngst vega þau ummæli Jesú sjálfs að hann sé Guðs sonur og hafi hlotið speki Guðs ásamt með þeim sem treysta því að hann sé af Guði sendur (Lúk 10.21,22). Áður en hann fæddist nefndi engillinn hann Guðs son (Lúk 1.32-35). Matteus guðspjallamaður vitnar í spádómsbók Hósea þar sem segir að Guði hafi kallað son sinn frá Egyptalandi (Matt 2.15; Hós 11.1). Páll postuli ritaði í einu bréfa sinna að maðurinn Jesús hafi verið fæddur af kyni Davíðs en um leið kröftuglega auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisuna frá dauðum (Róm 1.3,4). Jóhannes guðspjallamaður segir Jesú vera Guðs son (1.12-14) sem Guð hafi sent í heiminn til þess að frelsa hann (3.16,17). Hann vinnur verk Guðs í heiminum (10.34-36) og er í föðurnum og faðirinn í honum (17.1,22).