Í 1. versi 12. kapítulans í Fyrra bréfs Páls til Korintumanna og víðar, þýðir gríska orðið karisma„gáfur andans.“ Guð hefur af gæsku sinni gefið lærisveinum Jesú, kirkjunni, ýmsar náðargáfur og lagt henni um leið sérstaka ábyrgð á herðar. Gáfur andans eiga að styrkja söfnuðinn í starfi, auðvelda honum að ná til nýrra félaga með fagnaðarerindið og gæða líkama Krists lífi, sem er í eðli sínu gleði, friður, þjónusta og tilbeiðsla (1.Kor 12-14).
Gáfur andans eru einkum tvenns konar. Annars vegar eru þær náðargáfur ætlaðar söfnuðinum í heild, en hins vegar hæfileikar gefnir einstaklingum til þess að þeir geti leyst af hendi sérstök verkefni. Páll skrifaði Rómverjum, að hið nýja líf þeirra í samfélagi við Drottin væri náðargjöf,karisma(Róm 5.15-17). Hann kvaðst og vonast til þess að geta miðlað þeim af gjöfum andans (karisma) svo að þeir styrktust (Róm 1.11). Þær gáfur andans sem Páll nefnir oftast í bréfum sínum eru spádómsgáfa, sem lýsir sér í því að mæla orð visku og þekkingar frá Guði komin, hvatning og uppörvun, þjónusta við meðbræður og systur, gjafmildi, örlæti, leiðsögn og forysta (Róm 12.4-8). Þá segir Páll, að sumum hafi Guð falið að vera postular, öðrum að vera spámenn og enn öðrum kennarar (1Kor 12.28). Þá hlutu sumir hæfileika til þess að gera kraftaverk eða lækna sjúka og aðrir til að stjórna, tala tungum eða útlista tungutal (1Kor 12.7-11,28; 14.1-25). En kærleikann sagði Páll þó mestan og bestan allra gjafa (1Kor 13).
Postularnir lögðu hendur yfir þá, sem útvaldir voru til ákveðinna starfa (Post 6.1-1; 1Tím 4.14). Páll líkti söfnuðinum og hinum ýmsu hlutverkum fólks innan vébanda hans við mannslíkamann. Limir líkamans þiggja af anda Guðs mismunandi hæfni til þess að annast um andlega og efnislega velferð lærisveina Krists, sem eru kirkjan (1Kor 12..12-26).