Á dögum Jesú flökkuðu sumir fjárhirðar um kring á fjöllum og heiðum og bjuggu í tjöldum. Aðrir áttu heima í þorpunum. Kotbændur, sem sest höfðu að í smábæjum, máttu beita hjörðum sínum á hagana þar nærri. Þegar sneiðast tók um beit fóru þeir með fénað sinn upp í fjöllin að sumrinu en niður í dalina á vetrin.
Fjárhirðar áttu einatt erfiða ævi. Þeir urðu að gæta fjárins fyrir villidýrum og ræningjum myrkranna á milli og komu ekki undir þak sólarhringum saman, rétt að þeir fengju sér hænublund úti undir berum himni. Á nóttunni lokuðu þeir fjárhópinn inni í sauðabirgjum. Þau gátu verið hellar eða stekkir úr hlöðnu grjóti. Þá voru höfuðin talin og smalaprik notað til þess að skilja sauðina frá höfrunum. Þegar hjörðinni var hleypt út að morgni, var aftur kastað tölu á skepnurnar.
Í hjörðunum voru bæði sauðkindur og geitfé. Það þarf að hafa meira fyrir geitunum því að þær leita í grýttar hlíðar og hamra. Af ánum fæst kjöt til fæðslu og ull í fatnað. Á hátíðum Gyðinga þurfti fjöld lamba til þess að fórna í musterinu í Jerúsalem. Ekki er ólíklegt að nokkuð af fénu á Betlehemsvöllunum hafi verið ætlað til þeirra nota.
Jesús hafði fjárhirða í miklum metum, þótt margir samtímamanna hans litu niður á þá. Hann nefndi aukin heldur sjálfan sig góða hirðinn. „Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina,“ sagði hann (Jóh. 10.11-16). Í Davíðssálmum er Drottinn sjálfur kallaður hirðir (Slm 23.1 og 100.3). Og í spádómsbók Esekíels líkir Guð sér við hirði Ísraelsþjóðarinnar, sem leitar sauða sinna og annast þá (Es 34.11-16).