Um það leyti sem Jesús var í heiminn borinn var algengt að Gyðingar kæmu saman í heimahúsum til þess að biðjast fyrir og rannsaka ritningarnar.  Þessi siður átti upptök sín á öndverðri 2. öld f. Kr. og hélst á 1. öldinni e. Kr.  Einn slíkur hópur manna átti eftir að verða mjög mikilsháttar í þjóðfélagi Gyðinga.  Þeir kölluðu sig farísea á hebresku, sem merkir „hinir aðskildu“.  Þeir vildu varðveita og endurnýja gyðingdóminn með því að koma öllum Gyðingum til þess að virða hvíldardagshelgina fullkomlega, og halda jafnframt reglur um föstu, matvæli og hreinsunarsiði.  Flestir farísear stunduðu þó almenn störf og gengu óhindrað um gáttir í menningarheimi Rómverja.  En fundirnir, þar sem þeir einir komu saman, og skilyrðislaus hlýðni þeirra við boðorðið um að hvílast sjöunda dag vikunnar, greindu þá frá öðrum mönnum.  Þannig efldist með þeim skýr meðvitund um það að vera flokkur, er ekki færi að öllu leyti að siðum annarra.  Farísear bjuggu einnig í borgum utan Palestínu.  Páll postuli, sem var frá Tarsus í suðaustur-hluta Litlu-Asíu, kvaðst hafa verið vandlátur farísei og gætt þess að halda lögmálið til hins ýtrasta (Fil. 3:5).

Farísear prédikuðu lögmál Móse, en auk þess erfikenningu forfeðranna, þ.e.a.s. ýmis lög og reglur, sem ekki er að finna í helgum ritningum.  Þessi fyrirmæli og útskýringar á þeim er að finna í Mishna og Talmúd.   Farísear áttu vinsældum að fagna meðal alþýðu manna og þeir komu á fót samkunduhúsum og skólum.  Öfugt við suma aðra flokka Gyðinga trúðu þeir á líf eftir dauðann (upprisu) og töldu að mönnum yrði þá goldið eftir misgjörðum og  umbunað fyrir dyggðugt líferni (sjá Post. 23:6).