Drottinn er á grísku „kyrios“ og getur þýtt „meistari“ eða „herra“.  Þessi titill jafgildir þó ekki nafninu „Drottinn“, þegar það er notað um sjálfan Guð, þ.e. „Jahve.“  Í rómverska heimsveldinu var „drottinn“ haft um keisarann, sem var einvaldur, þó ekki væri hann guð.  Í Nýja testamenti er „drottinn“ virðingarheiti Jesú, konungsins sem reistur hefur verið frá dauðum og situr við Guðs hægri hönd. Orðið hefur þá sömu merkingu og „Kristur.“  Í samræmi við þetta prédikaði Pétur postuli svo:  „Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt að þennan Jesú, sem þið krossfestuð, hefur Guð gert bæði að Drottni og Kristi“ (Post 2.36).  Við konungahirðir var arameíska orðið marannotað um konunginn og þýðir það „drottinn vor.“  Á tveimur stöðum í Nýja testamenti ákallar söfnuðurinn Jesú með orðunum marana þa:  Drottinn vor, kom þú! (1Kor 16.22; Opb 22.20).

„Jesús er Drottinn“ kemur nokkrum sinnum fyrir í bréfum Páls postula (Róm 10.9; 1Kor 8.6; 12.3; 2Kor 4.5).  Það er elsta og stysta trúarjátningin í Nýja testamenti. Hinir fyrstu kristnu menn voru látnir gjalda þeirrar trúar sinnar, að Guð hefði reist Jesú upp frá dauðum, látið hann setjast sér til hægri handar og gefið honum nafnið sem öllum nöfnum er meira.  Það styrkti þá að játa að Kristur væri Drottinn.  Páll vitnar í gamlan sálm, þar sem segir:  „“Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:  Jesús Kristur er Drottinn.“  (Fil 2.9-11).