“Dekapólis” er grískt orð og þýðir “tíu borgir”.  Það er notað um samband 10 borga fyrir austan Galíleuvatn og Jórdandalinn. Damaskus er nær 112 km. norðaustur af Hippos við Galíleuvatnið austanvert;  Fíladelfía, sem er lengst í suðaustri, er innan við 40  km. frá Dauðahafinu.  Allar höfðu borgirnar tíu orðið fyrir miklum áhrifum af grískri menningu frá því Alexander mikli lagði Palestínu undir sig seint á 4. öld f. Kr.  Rústir Gerasa (sem nú heitir Jerash) hafa ýmislegt að geyma sem telja má einkennandi fyrir borgir sem drógu dám af Grikkjum en Rómverjar réðu á fyrstu öldinni e. Kr.:  hringleikahús, markaðstorg og fleiri eða færri musteri helguð heiðnum guðum og gyðjum.