Brauð hefur alltaf verið eitt helsta viðurværi mannkynsins (1Mós 3.19). Eiginkonur og dætur bökuðu brauð heima. (1Mós 18.6; 2Sam 13.7-10). Venjulega var brauð bakað daglega, en þar eð það geymdist sólarhringum saman mátti vel hafa það í nesti (1.Mós 45.23). Brauð var og borið á borð fyrir aðkomumenn (1Mós 14.18). Þegar fólkið óhlýðnaðist Guði hótaði hann þeirri refsingu að tekið yrði af því brauðið (3Mós 26.23-26).

Algengast var flatbrauð, bakað á hellum eða pönnum. Á borð í “Hinu heilaga” í musterinu voru lögð 12 ósýrð brauð, stærri og þykkri en venjulegt brauð, þeim fórnað Guði og kölluð skoðunarbrauð. Prestar einir máttu neyta þessa brauðs, en prestur gaf það eitt sinn Davíð og mönnum hans, þegar þá hungraði (1Sam 21.1-6). Þegar Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni á leið frá Egyptalandi til fyrirheitna landsins, sá Guð þeim fyrir brauði. Þeir nefndu þetta brauð mannasem á hebresku þýðir “hvað er þetta?” Þetta brauð er líka kallað “brauð af himni” (2Mós 16.4).

Af fornum bókrollum, hinum svonefndu Dauðahafshandritum, sem fundust skömmu fyrir miðja 20. öld, sést að Gyðingar í Qumran neyttu saman brauðs og víns. Undir borðum fögnuðu þeir góðæri og velferð og horfðu jafnframt með tilhlökkun fram til þess dags þegar Guð bæri sigurorð af óvinum þeirra og sendi Messías í heiminn. Lærisveinar Jesú trúðu því að hann væri Messías, hinn útvaldi Drottins og brauð lífsins (Jóh 6.32-35). Jesús kenndi þeim að biðja Guð um daglegt brauð (Lúk 9.3). Eftir að hann var stiginn upp til himna héldu lærisveinar hans áfram að rækja hið nýja samfélag, koma saman til máltíða og “brjóta brauðið” (Post 2.42-46), sem Jesús nefndi líkama sinn (1Kor 11.25,26; Mrk 14.22-25).