Það er bæn, þegar maðurinn talar við Guð eða hlustar á það, sem Guð vill við hann segja. Bæn getur líka verið lofgjörð til Guðs, sögð fram eða sungin. Bæn er syndajátning, þegar maðurinn viðurkennir það, sem hann hefur illt gjört. Bæn er beiðni, þegar Guð er ákallaður í neyð. Þakkarbæn heitir það, þegar Guði er þakkað fyrir gæsku hans og velgjörðir. Maðurinn getur beðið Guð, þegar hann er einsamall, eins og Jesús gerði stundum (Matt 14.23), en menn biðja líka margir saman, og hefur þá leiðtogi gjarnan orð fyrir hinum.

Í Davíðssálmum eru bæði lofsöngvar og bænir. Það eru þakkarbænir (Slm 11; 18; 63; 103), lofgjörðir (Slm 19; 104; 148), iðrunarsálmar (Slm 51), áköll um að leysast úr ánauð óvina (Slm 59; 69) og óskir um að Drottinn standi við fyrirheit sín (Slm 89). Þá er Guð vegsamaður fyrir lögmál sitt (Slm 119) og prísaður fyrir alla velgerninga lýð sínum til handa (Slm 136).

Spámennirnir kunna frá því að segja, er Drottinn talaði til þeirra, milliliðalaust (Jes 6; Jer 11.18-20; 17.7-18). Samkvæmt Esekíel spámanni skulu prestarnir bera fram áköll og bænir fyrir hönd safnaðarins (Es 40-48), en Jesaja horfir fram til þess dags, þegar mannkynið allt lofsyngur Guði einni raustu.

Í guðspjöllunum segir oft frá því, að Jesús hafi beðist fyrir (Mrk 1.35-38; 6.46). Í grasgarðinum Getsemane gerði hann bæn sína áður en hann var tekinn höndum (Mrk 14.36-39). Og hann ákallaði Guð, þegar búið var að negla hann upp á krossinn; vitnaði þá til bænar í 22. Davíðssálmi. Jesús kenndi lærisveinum sínum bænina, sem nefnd hefur verið „bæn Drottins“, þ.e. Faðir vor (Lúk 11.1-4; Matt 6.9-13). Í 17. kapítula Jóhannesarguðspjalls er varðveitt löng fyrirbæn, svonefnd „æðstaprestsbæn“ Jesú, sem hann bað fyrir lærisveinum sínum.

Páll postuli kenndi, að menn gætu, þótt óverðskuldað væri, beðið til föðurins á himnum, af því að Kristur hefði sætt þá við Guð. Réttlættir af trú, segir hann, hafa mennirnir frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krist, sem dó fyrir óguðlega á meðan þeir voru enn vanmegna (Róm 5.1-11). Guð var í Kristi að sætta heiminn við sig, segir Páll (2Kor 5.19) og heilagur andi var af Guði sendur til þess að biðja fyrir lærisveinunum og hjálpa þeim að biðja (Róm 8.26,27; 1Kor 2.10-13). Höfundur Efesusbréfsins biður þess, að Guð vildi gefa lærisveinum Jesú anda speki og opinberunar, svo að þeir mættu sjá hve kröftuglega hann verkar í þeim sem trúa (Ef 1.15-22). En umfram allt hvetur Páll börn Guðs til þess að biðja án afláts (Kól 4.2; 6.18; Fil 4.6).