Aristóteles (384-322 f. Kr.) lærði í „Akademíunni“ hjá Platóni  Þegar meistarinn var allur flutti Aristóteles frá Aþenu og gerðist kennari Alexanders mikla. Heimkominn aftur til Aþenu setti hann á stofn sinn eigin heimspekiskóla „Lykeion“.  Hann brýndi nauðsyn þess að spyrja eftir orsök hlutanna. Öfugt við Platón taldi Aristóteles að frummyndirnar, „formin“, væru eiginleikar hlutanna og yllu því að þeir breyttust og þar sem Guð væri eina, hreina og fullkomna frummyndin, þá væri hann orsök og markmið allrar verðandi.  Kenningar Aristótelesar, sem skráðar voru á bækur af honum sjálfum og nemendum hans, spanna flest svið vísinda og þekkingar, þar á meðal rökfræði og siðfræði, náttúru- og eðlisfræði, stjórnmál og ljóðlist.