Í ættartölu sona Nóa er Abram, „sjálfur forfaðirinn“ síðastur talinn (1Mós 11.26). Hann nefndist seinna Abraham („faðir margra þjóða“). Guð sagði honum að fara burt úr landi sínu, Úr í Kaldeu í Suður-Mesópótamíu, og til Kanaanslands (sjá kort á bls. 2364). Hann hét Abram því, að gera hann og niðja hans að „mikilli þjóð“ með sérstökum hætti vandabundinni Guði. Það fylgdi, að af Abram og Söru konu hans og afkomendum þeirra skyldu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta (1Mós 12.1-3; 15.1-21). Abram lagði af stað, ásamt með Söru og Lot bróðursyni sínum. Þau fóru um á stöðum sem seinna urðu þýðingarmiklir í sögu Ísraels (Síkem og Betel; Gal 12.4-9) og stöldruðu lengi í Egyptalandi, en þar kom að þau settust að í fyrirheitna landinu. Lot kaus að setjast að fyrir austan ána Jórdan, en Abram nam land vestan við hana. Hann tók sér bústað í Mamrelundi í Hebron, þar sem hann reisti Drottni altari (1Mós 13).
Þótt Abraham ætti enn engan son, hét Guð honum því að hann mundi eignast fjöld niðja (1Mós 15). Loks, þegar hann var 99 ára, fæddi Sara honum son. Honum var gefið nafnið Ísak, sem þýðir „hlátur“, af því að Sara hló þegar henni var sagt að hún mundi eignast son í elli sinni (1Mós 18.9-15). Abraham trúði fyrirheiti Guðs (1Mós 17.1-27) og barnið kom í heiminn. Ísak var síðan umskorinn til marks um hið sérstaka samband Abrahams við Guð (1Mós 21.1-7). Abraham hélt áfram að treysta Guði og það jafnt fyrir því þótt Guð skipaði honum að fórna Ísak. Á síðustu stundu þyrmdi Guð þó lífi hans og hét Abraham því enn einu sinni að allar þjóðir jarðarinnar mundi hljóta blessun af hinum fjölmörgu afkomendum hans (1Mós 22.1-19).
Abraham er víða í Nýja testamenti kallaður fulltrúi þeirra, sem reiða sig á fyrirheiti Drottins (Post 7.2-50; Róm 4.1-25; Gal 3.1-29; Heb 6.13,14; 7.1-10; 11.8).