Í sérhverju samfélagi manna gilda lög og reglur, sem ætlast er til að sé hlýtt. Lestu í þessu stutta bréfi um það sem Páll hafði að segja um kærleika Guðs og hvernig hann veldur því að lærisveinar Drottins ganga lengra í velvild og góðsemi heldur en kröfur þjóðfélagsins mæla fyrir um.  

Hver eru sérkenni Bréfs Páls til Fílemons?

Bréfið er afbragðs gott dæmi um sendibréf á tímum rómverska heimsveldisins. Það er styst af bréfum Páls og persónulegast. Greinilegt er, að Páll og Fílemon hafa verið nánir vinir. Flestir, sem nefndir eru í bréfinu, að meðtöldum Onesímusi, þræli Fílemons, koma líka fyrir í Kólossubréfinu (Kól 4.7-9).

Hvert var tilefni bréfsins?

Fílemon var efnamaður og átti líklega heima í Kólossu. Hann hefur átt þræla, eins og altítt var um auðmenn á þessum tímum (sjá „Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú„.)Hann var kristinn og kom söfnuðurinn saman í húsi hans (2). Í bréfi sínu reifar Páll málefni ánauðugs manns, sem Onesímus hét, og strokið hafði að heiman frá Fílemon. En nú hafði Onesímus tekið kristna trú og var aukin heldur orðinn kær vinur Páls. Það er erindi bréfsins að segja Fílemon, að Páll ætli að senda Onesímus heim aftur. Hann biður Fílemon taka á móti honum eins og vini og lærisveini Drottins.

Nánar um Fílemonsbéfið

Vera má, Páll hafi skrifað bréfið í fangelsinu í Efesus. En það getur líka verað ritað í Róm, þar sem Páll var í stofufangelsi. Rómverskur hermaður gætti hans þar og fylgdist með því hverjir heimsóttu hann (Post 28.16-21).

Páli er umhugað um að Fílemon taki Onesímusi opnum örmum. Hann dregur ekki í efa rétt Fílemons til þess að halda þræla. Og hann veit, að samkvæmt rómverskum lögum er húsbændum heimilt að hirta þræla sína og einkum að refsa strokuþrælum harðlega. Páll lítur svo á, að þrælahald sé sjálfsagður og eðlilegur hlutur (1Kor 7.20-22). Hann hvetur í bréfum sínum þrælana til þess að vera húsbændum sínum hlýðnir. En hann brýnir líka og ekki síður fyrir eigendum þrælanna að vera þeim góðir (Kól 3.22,23-4.1). Í Galatabréfinu heldur hann því fram, að þeir sem trúa á Krist, hvort heldur eru þrælar eða frjálsir menn, séu allir jafnir fyrir Guði (Gal 3.26-28).

Efnisskipan Bréfs Páls til Fílemons

  • Heilsun og bæn fyrir Fílemon (1-3)
  • Málefni Onesímusar, þræls Fílemons (4-22)
  • Kveðjur og fyrirbæn (23-35)

* Páll og Fílemon: Páll gekk og undir gyðinganafni sínu, Sál (sjá Post 7.57-8.3; 9.1-30). Hann var framan af ævi farísei og hafði reynt að hlýða lögmáli Móse út í æsar og ofsótt söfnuð Krists (Gal 1.13; Fil 3.5,6). En Jesús gerði hann að postula sínum og fól honum að prédika fagnaðarerindið heiðingjum (Post 9.1-19). Páll nefndi sjálfan sig iðulega „þjón (þ.e. þræl) Krists.“ Sjá „Páll (Sál) frá Tarsus„.

Fílemon var ríkur maður kristinn, er hélt þræla. Hann átti trúlega heima í Kólossu í Litlu-Asíu. Það hefur ekki vantað plássið í húsi hans, því að þar kom söfnuður saman. Fílemon var elskaður vinur Páls, enda hafði hann verið samverkamaður hans (1). Hann var að almannavitni trúr lærisveinn Jesú og unni kirkju hans, „endurnærði hjörtu heilagra“ (5,7).