Í veröld eins og okkar, þar sem lífsspeki og háttsemi manna er jafn margvísleg og mismunand og raun ber vitni, er eðlilegt að leitað sé sannleikans um Guð og spurt hvernig skuli breyta samkæmt „hinni heilnæmu kenningu“ (2.1) Lestu svörin sem er að finna í Bréfi Páls til Titusar. 

Hver eru einkenni Títusarbréfs?

Títus hét virktavinur Páls og samverkamaður. Hann var með Páli á kristniboðsferðum hans um Litlu-Asíu og Grikkland og viðloðandi söfnuðinn í Korintu (sjá 2Kor 2.13; 7.5-7, 13-15; 8.6, 16-24; 12.14-18; Gal 2.1-3). Títus hefur ekki verið farinn frá Krít, þegar hann fékk bréfið í hendur. Þar hafði Páll falið honum að segja til upprennandi forstöðumönnum safnaða (öldungum) í hverri borg (Tít 1.5; Post 27.7-13).

Hvert var tilefni bréfsins?

Í Títusarbréfi er lagt að Títusi að halda ótrauður áfram að kenna sannindi kristinnar trúar og leiðbeina um það hversu lifa skuli Guði velþóknanlegu lífi. Í söfnuðunum á Krít hafa bersýnilega verið á kreiki menn, sem reyndu að koma inn villukenningum og tilgangslausum þrætum hjá þeim kristnu (1.10-14; 3.9,10). Í bréfinu er líka að finna umvandanir ætlaðar safnaðarleiðtogum og kirkjufólki.

Nánar um Títusarbréfið

Títusarbréf er mestmegnis upptalning á æskilegum eiginleikum forystumanna safnaðanna. Títus er og hvattur til þess að halda fast við „hina heilnæmu kenningu.“ Hvort tveggja þetta gæti bent til þess, að bréfið sé skrifað seint á ferli Páls, eða jafnvel ritað af öðrum höfundi eftir að Páll var allur. Í þann tíð þótti ekkert athugavert við það að birta skrif í annars manns nafni. Það var jafnvel álitið heiður fyrir þann, sem bréfið var við kennt.

Efnisyfirlit Títusarbréfs

  • Forstöðumenn safnaða (öldungar) og villukennendur (1.1-16)
  • Rétt trú og Guði velþóknanlegur lifnaður (2.1-3.15)