Hermönnum er kenndur sjálfsagi og þeir þjálfaðir í að taka hverju sem að höndum ber, jafnvel þjáningu og dauða. Í þessu bréfi lesum við um það, hvers vegna Tímóteusi er sagt að vera góður hermaður Krists Jesú. 

Hver eru sérkenni Síðara Tímóteusarbréfs?

Tónninn í þessu bréfi er persónulegri en í Fyrra Tímóteusarbréfi. Tímóteus er Páli sem „elskað barn“ og Páll minnist hans án afláts í bænum sínum (1.2,3). Móðir Tímóteusar og amma eru báðar nefndar á nafn. Og Páll minnir Tímóteus á, er hann lagði yfir hann hendur og Tímóteus öðlaðist náðargjöf heilags anda, sem leiðbeina mundi honum í starfi hans.

Hvert var tilefni Síðara Tímóteusarbréfs?

Ýmsar breytingar urðu í frumkirkjunni á fyrstu öldinni eftir Krists burð. Þar kom, að leiðtogar safnaðanna gátu búist við að verða hnepptir í varðhald eða með öðrum hætti grátt leiknir af rómverskum yfirvöldum. Innan kirkjunnar spruttu upp nýjar kenningar, sem fóru í bága við hið upprunalega fagnaðarerindi um dauða Jesú á krossinum og upprisu hans frá dauðum. Höfundur bréfsins segir Tímóteusi að hann skuli vera „góður hermaður Krists Jesú“ og læra að þola illt (2.1,3). Sumir þeir, sem segjast vera lærisveinar Jesú, hafa þegar lent í „snöru djöfulsins“ og því ráðleggur bréfritarinn Tímóteusi að forðast „æskunnar girndir“ (2.20-26; 3.1-9). Hann hvetur Tímóteus til þess að halda þrautgóður áfram að prédika orðið, jafnvel þó þar að komi, að menn þoli ekki „hina heilnæmu kenningu“ (4.2,3-5).

Nánar um bréfið

Af Síðara Tímóteusarbréfi má ráða, að Páll situr í fangelsi þegar það er skrifað (1.8,16) og býst við að verða tekinn af lífi innan skamms (4.6). Tímóteus var Páli sem sonur (1Tím 1.2), enda höfðu þeir verið reisubræður og átt með sér náið samstarf (Róm 16.21; 1Kor 16.10; Fil 2.19; Post 16.1-3).

Þetta bréf, eins og Fyrra Tímóteusarbréf, hefur trúlega verið ritað ekki löngu áður en Páll var allur. En líka má vera, að það hafi verið skrifað af lærisveini hans og í hans nafni, jafnvel kynslóð eða tveimur eftir Páls dag. Ekkert þótti athugavert við að skilja eftir sig skrif í annars nafni og slíkt var ekki óalgengt á fyrstu öldinni. Það var þvert á móti álitið mikill heiður fyrir þann sem ritið var eignað.

Efnisyfirlit Síðara Tímóteusarbréfs

  • Höfundur uppörvar Tímóteus og leggur honum lífsreglurnar (1.1-2.26)
  • Hugdirfska og trúmennska allt til enda (3.1-4.8)
  • Heilræði að lokum og kveðjur (4.9-22)