6.2 hjálpaði ég þér: Sjá athugagrein við 1.6 (frelsist).

6.3-7 tilefni til ásteytingar…með orði sannleikans: Páll minnir Korintumenn á, að bæði hann og samverkamenn hans hafi lagt hart að sér og viljað fyrir alla muni forðast hvers konar árekstra við menn (1.22,23; 2.17; 1Kor 9.1-23). Sjá og athugagrein við 1.8. Páll staðhæfir, að kenning hans um Jesú sé rétt, þótt sumir safnaðarmenn í Korintu hafi reynt að telja mönnum trú um hið gagnstæða (1Kor 2.10-12; 2Kor 10.1-13; 11.4-15; 12.11).

6.10 auðga þó marga…á þó allt: Páll á við ríkidæmi fagnaðarerindisins um Jesú, en ekki jarðneskar eigur eða búskaparleg gæði. Þeir sem á Jesú trúa eiga fjársjóð, sem ekki verður komist höndum undir í þessum heimi.

6.14 Dragið ekki ok með vantrúuðum: Hafið ekkert saman við þá að sælda, sem ekki trúa á Jesú. Margar freistingar herjuðu á Korintumenn. Vafalaust hafa þeir átt vini og kunningja, sem ekki trúðu á Jesú og ætluðust til þess af lærisveinum hans að þeir héldu áfram að lifa og hegða sér eins og þeir höfðu gert áður en þeir komust til trúar (6.16).

6.14 ljósi og myrkri: Sjá athugagrein við 4.4. Í Biblíunni táknar „myrkur“ kvöl og þjáningu (Slm 107.10) eða heimsku og ráðleysi (Préd 2.14). Andstæðingar Guðs eru kallaðir „heimsdrottnar þessa myrkurs“ (Ef 6.12).

6.15 Belíar: Hebreskt orð, sem merkir „einskis nýtur.“ Annað nafn á Satan.

6.16 skurðgoð? Við erum musteri lifanda Guðs: Þeir sem dýrka skurðgoð eru í myrkri og vinir Satans (6.14,15). Sumum íbúum Korintu hefur vísast verið boðið að taka þátt í hátíðahöldum heiðingja. Þar kunna að hafa verið á borð bornir réttir úr kjöti sem fórnað hafði verið skurðgoðum. Viðstaddir gátu með þessu boðið freistingum heim og þeir vanvirtu Drottin. Er þeir átu og drukku mátti leggja það þannig út, að þeir tilbæðu skurðgoðin, sem matföngunum hafði verið fórnað. Sjá og 1Kor 8.1-12; 10.1-22.

Pállkvað anda Guðs búa í hverjum lærisveini Jesú og væri því líkami kristins manns eins og musteri (1Kor 3.16). Lærisveinarnir skyldu því láta ógert að tilbiðja skurðgoð, enda hefði slíkt óhreinleika í för með sér.

Brot úr öðru bréfi

Allt í einu er líkt og bréfritarinn missi niður þráðinn á milli 6.14 og 7.1. Sumir fræðimenn hafa því látið sér til hugar koma, að hér sé um brot úr öðru bréfi að ræða. Nú er vikið að skurðgoðum og talað um hve mikilvægt sé að forðast að saurga sig hvort heldur er á líkama eða sál. Þetta minnir á það sem Páll segir í 1Kor 8.1-13.