3.2 Guð hefur trúað Gyðingum fyrir orðum sínum: Í Fyrstu Mósebók segir frá því, er Drottinn útvaldi Abraham og Söru (1Mós 12.22). Afkomendur þeirra hétu Ísraelsmenn og síðar Gyðingar. Guð talaði til þjóðarinnar fyrir munn spámanna sinna. Sjá athugagrein við 1.2 (spámenn). Guð talaði líka í frásögnum, ljóðum og öðru efni helgirita Gyðinga, sem kristnir menn kalla Gamla testamenti.

3.8 Sumir bera mig þeim óhróðri að ég kenni þetta: Einhverjir óvildarmenn Páls sögðu hann hvetja menn til þess að óhlýðnast Móselögum og gjöra illt til þess eins að Guð fengi auðsýnt kærleika sinn með því að fyrirgefa þeim afbrotin. Þessir vildu að allir lærisveinar Jesú semdu sig undanbragðalaust að lögum, reglum og hefðum gyðingdómsins.

3.9 Gyðingum…Grikkjum, að þeir væru allir á valdi syndarinnar: Sjá 1.18 og athugagrein við 1.16 (Gyðinginn fyrst og aðra síðan).

3.18 Guðsótti: Þetta orð merkir ekki hræðslu við Guð, heldur miklu fremur djúpa lotningu fyrir honum.

3.19 lögmálið: Lögmál Móse, þar sem segir hvernig Guð vill að börn hans lifi lífi sínu.

3.22 Réttlæti trúarinnar, sem Guð gefur öllum: Þetta er eitt helsta umræðuefnið í öllum bréfaskriftum Páls postula. Fyrir trúna á fyrirgefningu Guðs í Jesú Kristi réttlætist maðurinn frammi fyrir Guði og verður sýkn saka. Sjá og Gal. 3.26-29.

3.23 Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð: Sjá „Synd„. Að „skorta Guðs dýrð“ merkir að megna ekki að hlýða lögmáli Guðs útí æsar og lifa samkvæmt vilja hans. Sjá 2Mós 40.34; Slm 143.2; Róm 5.2; 8.18.

3.24 endurlausn: Páll á ekki við það, að syndin sitji ekki lengur um hinn trúaða; aftur á móti máir Jesús út sektina, sem syndin veldur (3.25,26).

3.25-26 Guð bendir á blóð hans sem sáttarfórn: Gríska orðið yfir „sáttarfórn“ er hilasterion og var í Gamla testamenti notað um lokið á sáttmálsörkinni, sem nefndist náðarstóll. Á friðþægingardaginn ár hvert fórnuðu prestarnir skepnu og var blóði hennar stökkt á lok sáttmálsarkarinnar (náðarstólinn). Þannig var friðþægt fyrir syndir Ísraelsmanna (3Mós 16.14-16). Sjá og 1Kor 1.30; Ef 1.7,8; Heb 9.15.

3.28 réttlætist af trú: Gríska orðið, sem merkir að Guð „taki við“ manneskjunni og „frelsi“ hana, er hér þýtt á íslensku með „réttlætist.“ Guð sýknar fólk og tekur það í sátt, ekki fyrir það góða sem það gerir, heldur þegar það treystir hjálpræði Jesú Krists og trúir á hann.

3.29 Gyðinga…heiðingja: Sjá athugagrein við 2.10 (Gyðingurinn fyrst, en Grikkinn líka).

3.31 Geri ég lögmálið að engu: Páll vill ekki að menn hætti að hlýða Guðs lögum, enda birta þau vilja Guðs. En enginn skyldi þó álíta lögmálið mikilvægara en trúna á Krist.