Hvað verður, þegar við deyjum? Lesum um það, sem Páll hafði um þetta að segja í bréfi til vina í Þessaloníku.
Hver eru séreinkenni Fyrra Þessaloníkubréfs?
Þetta stutta bréf varpar skýru ljósi á samband Páls postula við söfnuðinn í Þessaloníku. Meira en helmingur þess er bænir fyrir safnaðarfólkinu og þakkir fyrir trú þess. Páll er hér líkt og prestur, sem ber hag sóknarbarna sinna fyrir brjósti og minnist þeirra með þakklæti. Aftur og aftur grípur hann til orðanna „þið vitið“ og „þið munið“, þegar hann minnir Þessaloníkumenn á það, sem þeir hafa af honum lært. Augljóst er, að hann er hér að skrifa fólki, sem þegar hefur tekið við Kristi og er trúir lærisveinar hans.
Hvert var tilefni Fyrra Þessaloníkubréfs?
Páll sendir Þessaloníkumönnum kveðju sína og þakkar þeim fyrir að þeir skuli standa stöðugir í trúnni. Hann tilkynnir þeim jafnframt, að hann hafi í hyggju að heimsækja þá aftur (3.11). Greinilega hafa einhverjir lærisveinanna í Þessaloníku velt því fyrir sér, hvað yrði um þá sem dæju áður en Kristur kæmi aftur (sjá „Endurkoman“ á bls. 2184). Páll svarar þessari spurningu í 4.13-18. Og hann minnir lesendur sína á nauðsyn þess að „vaka og vera allsgáða“, því að „dagur Drottins kemur eins og þjófur á nóttu“ (5.1-11). Svo sem í flestum bréfum sínum leiðbeinir Páll hér Þessaloníkumönnum um það, hvernig lifa skuli Guði velþóknanlegu lífi (4.1-12).
Nánar um bréfið
Höfundur Postulasögunnar segir frá því þegar Páll boðaði orðið í Þessaloníku (Post 17.1-10). Þó er ekki vitað, hve lengi hann dvaldi í borginni. En hann kveðst í bréfinu hafa unnið nótt og dag til þess að vera engum til þyngsla (2.9) um leið og hann prédikaði fagnaðarerindi Guðs fyrir Þessaloníkumönnum. Vel má því ímynda sér, að hann hafi haft viðdvöl í Þessaloníku um nokkurra mánaða skeið.
Þessaloníku var höfuðborg rómverska skattlandsins Makedóníu í Grikklandi norðanverðu. Um borgina þvera lá þjóðbrautin frá austri til vesturs. Margir íbúanna höfðu verið skurðgoðadýrkendur, áður en þeir tóku trú (1.9). En nú voru þeir orðnir fyrirmynd trúuðum og frá þeim hafði orð Drottins hljómað, og það víðar en í Makedóníu og Akkeu (1.7,8). Þetta Fyrra bréf Páls til Þessaloníku manna má vel vera hið elsta af bréfum hans, sem varðveitt eru í Nýja testamenti.. Það getur jafnvel verið hið allra elsta efni af öllu þvi, sem varðveitt er í Nýja testamentinu.
Efnisskipan Fyrra Þessaloníkubréfs
Efnisyfirlit Fyrra Þessaloníkubréfs er svofellt:
- Trú Þessaloníkumanna og boðun Páls postula (1.1-3.13)
- Líferni kristins manns og endurkoma Krists (4.1-5.22)
- Kveðjur (5.23-28)