Páll sagði hinum kristnu í Korintu sannleikann og í góðri meiningu. En það fór öfugt í suma. Lestu Síðara Korintubréf og sjáðu hvernig Páll biður lesendurna „láta verða rúmgott“ fyrir sig hjá þeim enn að nýju.
Hver eru einkenni Síðara Korintubréfs?
Þetta bréf Páls sýnir glöggt hversu samskiptum hans og safnaðarins í Korintu var varið og einkanlega hvernig Páll svarar þeim, sem veist hafa að honum. Margir styðja Pál, en sumir draga í efa kennivald hans sem postula. Aðrir hafa horn í síðu hans fyrir sitthvað sem hann hefur látið frá sér fara í ræðu og riti og til eru þeir, sem ganga svo langt að telja hann jafnvel ónotalegan og viðskotaillan í skrifum sínum. Páll heldur uppi vörnum fyrir sig, kveðst að sönnu vera postuli Krists og notar tækifærið til þess að brjóta upp á brýnum umræðuefnum, eins og t.d.:
- Við eigum að fyrirgefum öðrum (2.5-17);
- Nýr sáttmáli Guðs, orðinn til fyrir heilagan anda, en ekki ritaður í Lögmálinu (3.1-18);
- Hver sem er í Kristi, er orðinn nýr maður (5.17-21);
- Látum fé myndarlega af hendi rakna til stuðnings söfnuðinum í Jerúsalem (8.1-15; 9.1-15); og
- Guð hefur breytt lífi Páls sjálfs (12.1-9).
Hvert var tilefni bréfsins?
Páll hafði um skeið átt heima í Korintu og starfað þar með lærisveinum Krists. Síðar skrifaði hann þeim bréf í því skyni að uppörva þá og svara spurningum þeirra (sjá innganginn að Fyrra Korinturéfi). Hann lofaði líka að heimsækja þá (1Kor 16.5,6). En hann byrjar Síðara Korintubréf á því að segja þeim hvers vegna hann er nú hættur við að koma. Hann sniðgengur Korintu til þess að fólki þar finnist hann ekki of frekur og ágengur (1.23), og líka til þess að vita hvort safnaðarmenn fari að fyrirmælum hans um að fyrirgefa þeim og hugga, sem hrasað hafa (2.5-11). Þegar Páll skrifaði Síðara Korintubréf sitt var honum mjög í mun að réttlæta postuladóm sinn, en jafnframt að hvetja Korintumenn til þess að láta rausnarlega af hendi rakna fjárstyrk til handa kristnum mönnum annars staðar í rómverska heimsveldinu.
Hvernig var ástatt í Korintuborg, þegar bréfið var skrifað?
Páll mun hafa ritað Korintumönnum fleiri en eitt sendibréf og fleiri en tvö. Þar á meðal hefur verið bréfið sem minnst er á í 1Kor 5.9 og svo sjálft Fyrra Korintubréf. Hann getur líka „tárabréfsins“ svonefnda í 2Kor 2.3,4. Síðara Korintubréf samanstendur trúlega af tveimur umburðarbréfum, sem síðar urðu að einu bréfi. Hið fyrra er 2Kor 1-9, en hið síðara 2Kor 10-13. Það getur meira að segja verið, að 2Kor 6.14-7.1 sé brot af einu bréfinu enn, enda kemur í ljós við nána athugun, að það verður rof í hugsanaganginum frá 6.11-33 og allt að 7.2. Talið er, að Páll hafi dvalist í Korintu á árunum 50-51 e. Kr. og skrifað Fyrra Korintubréf þegar hann var kominn aftur til Jerúsalem (Post 18) 53-54 e. Kr. Bréfin tvö, sem eru efni Síðara Korintubréfs hefur hann svo skrifað einhvern tíma eftir þetta.
Efnisskipan bréfsins
Þótt Síðara Korintubréf sé talið samsett úr fleiri bréfum eru upphaf þess og endir í hefðbundnum sendibréfsstíl þessa tíma. Í stórum dráttum er efnið svolátandi:
- Heilsun, bænir og þakkir (1.1-11)
- Páll vill friðmælast við andstæðina sína (1.12-6.13; 7.2-16)
- Kafli úr öðru bréfi (6.14-7.16)
- Páll hvetur Korintumenn til þess að gefa af rausn (8.1-9.15)
- Páll rökstyður réttmæti postuladóms síns (10.1-12.21)
- Áminning, hvatning og kveðjur (13.1-13)