Hvað gerir þú fyrst af öllu, þegar þú færð góðar fréttir? Hvernig flytur þú öðrum gleðileg tíðindi? Lestu Postulasöguna, sem segir frá því er fagnaðarerindið um Jesú breiddist út um heiminn!
Hver eru sérkenni Postulasögunnar?
Postulasagan er seinna bindi ritverks eftir höfund Lúkasarguðspjalls. Í guðspjalli sínu segir Lúkas frá öllu “sem Jesús gerði og kenndi frá upphafi, allt til þess dags er hann varð upp numinn” (Post 1.1,2). Og einmitt þar hefst Postulasagan. Jesús er í þann veginn að stíga upp til himins, en áður segir hann við lærisveina sína: “Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.” Jafnframt heitir hann því að þeir muni öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir þá (1.8).
Til hvers var Postulasagan skrifuð?
Höfundi Postulasögunnar var í mun að sýna fram á, að ekkert gæti komið í veg fyrir það að fagnaðarerindið um Jesú næði að breiðast út um heim allan. Þar með er þó ekki allt sagt. Postulasagan hermir jafnframt frá því er deilt var um það innan frumkirkjunnar hverjir mættu telja sig til Guðs lýðs. Þar eð fyrstu lærisveinar Jesú voru Gyðingar, litu margir þeirra svo á, að fagnaðarerindið væri handa Gyðingum einum. En fyrir tilverknað Heilags anda varð þeim smám saman ljóst, að boðskapur Jesú var ætlaður öllum mönnum og þjóðum. Í 15. kapítula Postulasögunnar segir frá merkilegum fundi í Jerúsalem, þar sem leiðtogar frumkirkjunnar samþykktu að heiðingjum og Gyðingum skyldi boðað fagnaðarerindið um Jesú jafnt.
Hvert er meginefni Postulasögunnar?
Stíll höfundur Lúkasarguðspjalls og Postulasögunnar er hinn sami og sagnaritara og ræðumanna samtímans. Hann er gagnkunnugur sögusviðinu og því fólki sem postularnir kynntust á ferðum sínum. Hann kann og að segja frá kraftaverkum, sem þeir unnu í nafni Jesú.
Í Postulasögunni hermir frá manni að nafni Sál (Páll). Hann var rétttrúaður Gyðingur og hafði lagt sig í framkróka um að gera að engu hreyfingu þeirra er fylgdu Jesú að málum (Post 8.1-3; 9.1-2). Eitt sinn er hann var á ferð í þeim erindagerðum að handtaka nokkra af lærisveinunum, birtist Jesús honum í sýn. Þetta gjörbreytti lífi hans öllu. Hann varð sjálfur lærisveinn og mestur allra mikilla prédikara fagnaðarerindisins. Megnið af síðari hluta Postulasögunnar fjallar um starf prédikarans Páls. Þar er greint frá ferðum hans um löndin kringum Miðjarðarhafið austan- og norðanvert. Hann flutti boðskap Jesú alla leið til Rómaborgar, sem var mest borga í þennan tíma (28.16-31). Tvö landakort sýna þann víðáttumikla heimshluta, þar sem Páll, samverkamenn hans og fleiri prédikarar boðuðu fagnaðarerindið um Jesú.
- Fyrsta og önnur kristniboðsferð Páls (landakort).
- Þriðja kristniboðsferð Páls og ferð hans til Rómar (landakort).
Efnisyfirlit Postulasögunnar
Boðskapurinn um Jesú breiddist út frá Jerúsalem til æ fjarlægari staða. Hér fer á eftir yfirlit um efni Postulasögunnar. Í henni greinir frá því, að fagnaðarerindið um Jesú barst frá Jerúsalem og um rómverska heimsveldið allt.
- Lærisveinar Jesú öðlast kraft Heilags anda (1.1-2.47)
- Postularnir búnir undir kraft Guðs, gjöf Heilags anda (1.1-26)
- Guð úthellir anda sínum (2.1-47)
- Frumkirkjan í Jerúsalem (3.1-8.3)
- Pétur og Jóhannes (3.1-4.22)
- Daglegt líf fyrstu lærisveinanna í Jerúsalem (4.23-5.42)
- Leiðtogar hinnar ungu kirkju (6.1-8.3)
- Prédikun fagnaðarerindisins í Júdeu og Samaríu (8.4-9.31)
- Filippus, Pétur og Jóhannes í Samaríu (8.4-40)
- Drottinn kallar Sál (9.1-31)
- Gleðiboðskapurinn fluttur heiðingjunum (9.32-15.35)
- Pétur prédikar fagnaðarerindið og fær að reyna kraft þess (9.32-11.18)
- Vaxandi kirkja í ólgusjó (11.19-12.25)
- Kristniboðsferðir Sáls og Barnabasar (13.1-14.28)
- Postulafundurinn í Jerúsalem (15.1-35)
- Fagnaðarerindið boðað í Litlu-Asíu, Grikklandi og Róm (15.36-28.31)
- Önnur kristniboðsferð Páls (15.36-18.23)
- Þriðja kristniboðsferð Páls (18.24-21.16)
- Páll í Jerúsalem (21.17-23.22)
- Páll í Sesareu (23.23-26.32)
- Páll boðar fagnaðarerindið í Rómaborg (27.1-28.31)
Heilagur andi: Heilagur andi Guðs kemur mjög við sögu í Postulasögunni og Lúkasarguðspjalli, en þau rit bæði eru verk sama höfundar. Mörgu undursamlegu veldur Andinn helgi. Hann yfirskyggir Maríu mey og hún verður þunguð að barninu Jesú (Lúk 1.35). Hann sýnir Páli postula hvaða borgir hann skuli sniðganga eða að öðrum kosti heimsækja á kristniboðsferðum sínum (Post 16.6-8; 20.22). Hann leiðbeinir fólki og stýrir gerðum þess (Lúk 4.1,14; Post 8.29,39). Hann gefur því náðargáfur, leggur því orð á tungu í prédikuninni og hjálpar því aukin heldur að gera sig skiljanlegt á framandi tungumálum (Post 2.1-11). Heilagur andi blés og postulunum í brjóst hugrekki til þess að prédika og lækna sjúka. Þessi kraftur andans varð vaxtarbroddur frumkirkjunnar og styrkur hennar (Post 9.31). Sjá og “Heilagur andi” í orðtakasafni.
Á málverkum og altaristöflum er dúfan oft látin tákna heilagan anda, enda herma öll guðspjöllin fjögur að þegar Jesús var skírður af Jóhannesi hafi andinn stigið “niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa” (Lúk 3.22; sjá og Matt 3.16; Mrk 1.10; Jóh 1.32).