Stundum þarf að þegja yfir góðum fréttum og segja þær ekki fyrr en rétta stundin til þess er runnin upp. Í Markúsarguðspjalli er leyndarmálið mikla svarið við spurningunni: „Hver er Jesús?“

Hver er sérstaða Markúsarguðspjalls?

Markúsarguðspjall er styst og líklega elst guðspjallanna fjögurra. Málfarið á því er að sama skapi einfalt og auðskilið sem sagan sem það rekur er mikilfengleg. Margt af efni Markúsarguðspjalls rekumst við á aftur í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar, en þessir höfundar tveir skipa því öðru vísi niður og bæta auk þess við það. Það er mikið um að vera í Markúsarguðspjalli og frásögnin er hröð og það er sagt frá fjölmörgum kraftaverkum Jesú og lækningum. En samkvæmt Markúsarguðspjalli er stórkostlegasta kraftaverk Jesú þjáning og dauði hans sjálfs Sá sem fyrstur virðist skilja þetta er rómverskur liðsforingi sem fylgist með Jesú deyja á krossinum og verður þá að orði: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs“ (15.39).

  • Markúsarguðspjall svarar mörgum knýjandi spurningum um Jesú, meðal annars þessum:
  • Hvernig rætast spádómar Gamla testamentis í orðum Jesú og verkum?
  • Hvernig er Jesús Guðs sonur og hvernig verður í framtíð litið á hann sem Mannssoninn?
  • Hvernig og hvers vegna dó Jesús og hvernig kemur hann aftur?
  • Hvernig á hinn nýi lýður Guðs að haga lífi sínu?

Hvers vegna var Markúsarguðspjall skrifað?

Í 1. versi 1. kapítulans segir, að guðspjallið sé „fagnaðarerindið um Jesú Krist, Guðs son.“ Guðspjallið í heild sinni heldur svo áfram að útskýra hvernig þetta má vera. Jesús sýnir með orðum sínum og verkum, að hann er „sannarlega sonur Guðs.“

 Hverjum er guðspjallið ætlað – og hver er höfundur þess?

Markús skýrir merkingu arameískra orða og gerir grein fyrirgyðinglegum siðvenjum. Það bendir til þess að hann hafi ætlað rit sitt lesendum, sem væru ýmist heiðnir eða að öðrum kosti kristnir menn, án þess þeir hefðu áður verið gyðingatrúar. Pétur postuli skipar mjög þýðingarmikinn sess í guðspjallinu og þar sem Markús er sagður í fylgd með honum í 1Pét 5.13 töldu menn þegar á 2. öldinni að Markús væri höfundur þess.

Hver er bygging Markúsarguðspjalls?

Víða í guðspjallinu leggur Jesús ríkt á við fólk og brýnir jafnvel fyrir illum öndum að segja engum hver hann sé eða hvað hann hafi aðhafst (1.41-43; 3.10-12; 7.34-36; 8.30). Í 15.39 kemst rómverskur liðsforingi að þeirri niðurstöðu, að Jesús sé Guðs sonur, en einmitt þau sömu orð hefur Markús um Jesú í upphafi guðspjalls síns. Það er því næstum eins og að lesa leynilögreglusögu að lesa Markúsarguðspjall. Meðan frásögunni vindur fram, eru annað veifið gefnar vísbendingar um það, hver Jesús er.

Þegar 16. kapítuli er lesinn kemur í ljós að Markúsarguðspjalli lýkur á þrjá mismunandi vegu. Það helgast af því að handritum guðspjallanna ber ekki öllum saman. Mörgum hinna eldri þeirra lýkur á 8. versinu; önnur taka 9. til 20. vers með; enn önnur hafa styttri endi.

Meginlínur eru þessar:

  • Jesús leggur grunn að starfi sínu (1.1-20)
  • Jesús vinnur fyrir guðsríkið í Galíleu (1.21-9.50)
    • Lækningar, kraftaverk, dæmisögur (1.21-8.26)
    • Jesús er Messías (8.27-9.13)
    • Starfinu haldið áfram í Galíleu (9.14-50)
  • Jesús kennir og vinnur kraftaverk í Júdeu (10.1-52)
  • Jesús í Jerúsalem (11.1-15.47)
    • Kennsla í musterinu (11.1-12.44)
    • Guðsríkið, sem kemur (13.1-37)
    • Síðustu stundirnar (14.43-15.47)
  • Jesús lifir (16.1-20)