Ísraelsmönnum og nágrönnum þeirra í Austurlöndum nær var mikið í mun að dauðir fengju virðulega útför. Látnir voru venjulega greftraðir innan sólarhrings frá andlátinu vegna hitans í veðrinu. Í lögmáli Móse er þess getið, að lík skuli jarðað samdægurs (5Mós 21.23). Það þótti ósvinna að láta jarðneskar leifar ástvinar rotna þar sem hundar og hræfuglar komust í þær.
Í Biblíunni er ekki að finna neina nákvæma lýsingu á því hvernig lík dauðra voru búin til greftrunar. Þó er vitað, að líkið var þvegið (Post 9.37), smurt ilmsmyrslum (Lúk 24.1) og sveipað línklæði (Matt 27.59; Jóh 11.44).
Til forna lögðu Hebrear hina dauðu í hella eða grafir. Abraham og Sara voru jörðuð í Makpelahelli í grennd við Hebron (1Mós 23.19; 25.9,10). Seinna var farið að höggva grafhvelfingar í kletta. Sumar grafir rúmuðu aðeins eitt lík en aðrar fleiri og til voru sérstakir fjölskyldugrafreitir. Grafir voru kirfilega merktar, enda töldust þeir óhreinir og óhæfir til þess að taka þátt í guðsdýrkuninni, sem urðu til þess að snerta lík, jafnvel þótt í ógáti væri. Þegar hold hafði rotnað af beinum var þeim safnað í ílát, sem kallað var beinahús. Eftir það mátt nota gröfina aftur.
Hjá Grikkjum, Rómverjum og Kanverjum tíðkaðist líkbrennsla. Gyðingum þótti hún niðurlægjandi og brenndu því aðeins lík að þau væru þegar orðin mjög illa farin (1Sam 31.12) eða viðkomandi hefði látist af völdum farsóttar (Amos 6.10). Lík þeirra, sem óhýðnast höfðu boðorðum Guðs, voru líka stundum brennd (3Mós 20.14; Jós 7.25).
Útfarasiðir snerust um sorg eftirlifendanna (sjá athugagrein við 7.12) sem gengu í líkfylgd til grafarinnar. Lík voru borin á trébörum (2Sam 3.31; Lúk 7.11-15). Að útför lokinni töldust þeir, sem búið höfðu líkið til greftrunar, óhreinir og óhæfir til þátttöku í helgihaldi. Þeir urðu því að gangast undir hreinsunarathöfn samkvæmt ákveðnum helgisiðum og hlutu eftir það fulla aðild að Guðs lýð að nýju (4Mós 19.11-20). Ekki eru til neinar heimildir um það að Gyðingar kæmu saman yfir moldum dauðra til þess að heiðra minningu þeirra.