Í helgiritum gyðinga (Gamla testamenti) þýðir “mannssonur” víða sama og manneskja. Þetta má glögglega sjá í spádómsbók Esekíels þar sem spámaðurinn er kallaður “mannssonur” nær hundrað sinnum. Þannig minnti Drottinn Esekíel á að hann væri ekkert annað en maður af holdi og blóði og yrði að beygja sig fyrir mætti Guðs og fyrirætlunum hans í heimi hér.
Spámaðurinn Daníel notar líka þetta heiti, en hjá honum er merkingin önnur. Hann kveðst hafa séð “einhvern koma á skýjum himins, áþekkan mannssyni” (Dan 7.13). Hér er “mannssonurinn” frelsari – maðurinn sem Guð mun útvelja til þess að ríkja yfir heiminum og þeim sem í honum búa. Líkt og þessi mannssonur kemur Jesús í heiminn, hinn útvaldi Guðs (Messías).
Í guðspjöllunum nefnir Jesús sjálfan sig Mannssoninn. Stundum gerir hann það til þess að kveða skýrt á um mennsku sína (Matt 8.20) eða til þess að lýsa því hlutverki sínu að þjást og láta lífið til lausnargjalds fyrir alla (Mrk 8.31; 9.31; 10.45). En nafngiftin er líka notuð þegar rætt er um hina komandi dýrð Jesú, þegar börnum Guðs verður safnað saman og Guðs ríki (konungdómur) kemur með krafti (Mrk 8.31-9.1). Þá munu menn sjá Mannssoninn sitja til hægri handar Hins almáttuga (Mrk14.62). Hann mun og snúa aftur til jarðarinnar með mætti og mikilli dýrð (Matt 24.30). Af þessum lýsingum guðspjallanna hafa sumir fræðimenn ráðið að Jesús hafi haft nafnið Mannssonur í sömu merkingu og Daníel forðum.
Fólki er ætlað að gera það upp við sig og viðurkenna opinberlega hvern það telji Mannssoninn vera (Mark 8.27; Matt 16.13). Þeim, sem trúa því, að hann hafi verið af Guði sendur til þess að endurnýja lýð hans og safna allri sköpuninni saman undir stjórn Guðs, býr hann stað í húsi föður síns. Þeim mun verða launað fyrir það sem þau hafa gott gert (Matt 16.27,28).
Sjá einnig Guðs sonur og Messías (hinn útvaldi)