Orðið “sýnagóga” (samkunda) er komið úr grísku, dregið af sögn sem þýðir “að koma (eða safna) saman”. Í Biblíunni er það notað um hóp fólks sem sækir guðsþjónustu. Ekki er víst hvenær samkundurnar urðu til, en trúlega hefur það verið eftir að Babýlóníumenn lögðu Júda undir sig árið 586 f. Kr. og fluttu marga af íbúunum á brott (sjá athugagrein við 1.6b-11). Meðan á dvölinni í Babýlón stóð gat fólkið ekki tignað Guð í musterinu í Jerúsalem eða fært honum fórnir, svo það varð að haga helgihaldinu öðru vísi.
Síðar tóku gyðingar að flytjast til annarra landa, einkum Egyptalands, Grikklands og héraðanna sem núna eru Tyrkland og suðurhlutar Rússlands. Þá komu þeir saman til guðsþjónustu og ritningarlesturs og til þess að halda hópinn. Þetta samneyti var kallað samkundur. Í heimalandinu héldu Gyðingar áfram að efna til þessara samfunda og það jafnt fyrir því þótt konungarnir af ætt Selevkída reyndu að þröngva þeim til þess að tilbiðja gríska guði. Einn þeirra, Antíokkus IV Epífanes, sem ríkti í Palestínu frá 175 til 164 f. Kr., krafðist þess að vera tilbeðinn sem guð væri, líkt og Alexander mikli hafði gert á undan honum. Prestar gyðinga af Makkabea-ætt fóru fyrir uppreisn gegn þessum gríska konungi. Eftir það varð þeim frelsis auðið um hríð og settust sjálfir að ríki, en framferði Makkabeanna síðar varð til þess að flokkadrættir urðu í landinu. Voru ýmsir ósáttir við það að hvergi væri hægt að koma saman til helgihalds nema í musterinu. Þeir fóru því að hittast á heimilum og öðrum hentugum stöðum til þess að rannsaka Ritningarnar og ræða tilganginn með lífi Gyðs lýðs.
Svona var ástatt á dögum Jesú (Mark 1.21; 6.2) og postulanna (Post 1.12-14; 9.2-20; 13.5). Þar sem burtfluttir gyðingar fjölmenntu var farið að kalla “bænastaði” (Post 16.16). Eftir að herir Rómverja lögðu munsterið í Jerúsamelm í rúst árið 70 e. Kr. höfðu musterisprestarnir engan stað lengur til þess að halda guðsþjónustur. Musterið stóð ekki lengur uppi og því urðu samkundurnar mikilsverðasti þátturinn í helgihaldi gyðinga og félagslífi þeirra í Miðjarðarhafslöndunum öllum. Gyðingar héldu áfram að mæla sér mót á heimilum eða í opinberum fundarhúsum, svo sem sjá má í Postulasögunni þar sem segir frá Páli í Efesus (Post 19.8-10). Það var ekki fyrr en á annarri og þriðju öld eftir Krist að tekið var að laga hús að þörfum guðsþjónustunnar og byggja ný slík. Einnig þau voru nefnd samkundur. Fundist hafa fornminjar sem vitna um þær víða í Ísrael og löndunum kringum Miðjarðarhafið.