Jesús, Hinn smurði, sem sendur er af Guði.
Matteus hefur guðspjall sitt með því að rekja ættir Jesú og sýna fram á að hann sé afkomandi Davíðs konungs og Abrahams. Svo segir hann frá fæðingu Jesú og fyrstu æviárum. Síðan verða skil og þráðurinn er tekinn upp að nýju þegar Jesús er þrítugur að aldri. Fundum þeirra Jóhannesar skírara ber saman og Jóhannes skírir Jesú. Eftir það er hans freistað af djöflinum í eyðimörkinni. Þessir viðburðir búa Jesú undir þá þjónustu sem Guð hefur útvalið hann til: að frelsa mannfólkið í heiminum.
Sögð deili á Jesú
Forfeður Jesú taldir upp og sagt frá fæðingu hans.
Drottinn lét spámanninn boða: “Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,” það þýðir: Guð með oss. Matt. 1:23.
—
1.1 sonar Davíðs, sonar Abrahams: Foreldrar Jesú voru Gyðingar, komnir af frægum stórmennum í ættir fram. Davíð konungur var álitinn mestur þjóðhöfðingja í sögu Ísraels. Sumir spámannanna höfðu sagt, að Messías yrði af ætt hans (Jes 11:1-5). Abraham var aftur uppi mörgum öldum á undan Davíð. Hann var guðhræddur og gegn maður og því hét Guð þeim Söru konu hans því að afkomendur þeirra myndu verða mikil þjóð. Það voru Ísraelsmenn. Sjá nánar Abraham.
1.2-11 Abraham….Jekonja og bræður hans: Frásagnir af sumum langfeðga Jesú er að finna í 1Mós 12-38; Rut 4:13-22; 1Sam 16-2Sam24; 1 og 2Kon; 1Kron 2:9-17.
1:6b-11 á tíma útlegðarinnar í Babýlon: Árið 586 eða 587 f. Kr. tók babýlonski herinn Jerúsalemsborg og lagði í eyði. Babýloníumenn rændu musteri Gyðinga helgigripum og skikkuðu marga íbúa borgarinnar og nágranna þeirra til þess að fara og taka sér búsetu austur í Babýloníu. Þessi útlegð varði til ársins 538 f. Kr., þegar Persar báru sigurorð af Babýloníumönnum og leyfðu gyðingafólki að snú aftur heim til Júda.
1.17Messías: Orðið Messías er hebreska og þýðir “hinn útvaldi” eða “hinn smurði.” Smurning fólst í því að olíu var hellt yfir höfuð manns til merkis um að honum væri ætlað sérstakt hlutverk eins og eitthvert hátt embætti (1Sam 12:3-5). Við smurningu kom andi Guðs og kraftur yfir viðkomandi. “Hinn smurði” er christos á grísku (Kristur).
1.18 heilögum anda: Heilagur andi er kraftur Guðs að starfi í heimi hér. Sjá nánar um Heilagan anda í orðtakasafni. Sjá einnig Lúkas 1.27.
1.19 valmenni: “góður maður” eða “maður, sem gjörir rétt.”
1.21 láta heita Jesú: Hebreska nafnið Jeshua, sem við ritum “Jesús”, þýðir “Drottinn frelsar.” Sjá einnig Lúkas 1.31.
1.23 Jes 7.14 (Septúaginta)
1.25 Lúkas 2.21.