Jóhannes hefur stundum verið kallaður hinn síðasti af spámönnum Gamla testamentis. Hann boðaði yfirvofandi dóm Guðs og komu Messíasar. Lúkas guðspjallamaður segir Jóhannes hafa verið son aldraðra prestshjóna sem hétu Sakarías og Elísabet. Engill hafði heitið Sakaríasi því, að þeim myndi verða sonar auðið. Það yrði hlutverk hans að greiða veg Messíasar og undirbúa starf hans (sjá Lúkas 1.13-17,57-66). Guðspjöllin greina frá því, að Jóhannes hafi verið spámaður sem prédikaði í óbyggðum og brýndi áheyrendur sína að búast við hinu nýja, sem Drottinn hefði fyrir stafni (Matt 1.1-12; Markús 1.4-8; Lúkas 3.1-20). Hann sagði löndum sínum að þeir gætu ekki reitt sig á náð Guðs fyrir það eitt að vera afkomendur Abrahams. Þeir yrðu að meðganga að þeir væru óhlýðnir, snúa frá villu síns vegar og bregðast við hinum nýja og kröftuga boðbera Guðs, sem nú væri kominn að búa meðal þeirra (Lúka 3.16).
Jóhannes skírði þá sem hryggðust vegna synda sinna og margir töldu hann vera Messías (Lúkas 3.15). En Jóhannes svaraði því til, að Messías væri sér langtum fremri (Matt 3.11,12; Lúkas 3.16,17). Jesús, að sínu leyti, líkti Jóhannesi við Elía, spámanninn sem talið var að myndi kom aftur áður en dómur Guðs gengi yfir heiminn (Matt 11.14). Hann sagði ennfremur að það væri hlutverk Jóhannesar að búa fólk undir komu Guðs ríkis (Lúkas 7.27; Matt 11.10). Heródes Antípas, sonur Heródesar mikla og bróðir Arkelásar (sjá Matt 2.19-22), fyrirskipaði að Jóhannes skyldi tekinn af lífi (sjá Matt 14.1-12; Markús 6.14-29).