Biblía 21. aldar – 2007

BIBLÍAN. HEILÖG RITNING. GAMLA TESTAMENTIÐ ÁSAMT APÓKRÝFU BÓKUNUM. NÝJA TESTAMENTIÐ. HIÐ ÍSLENSKA BIBLÍUFÉLAG. JPV ÚTGÁFA.

Þetta er 11. biblíuútgáfan á íslensku. Um nýþýðingu er að ræða, þá sjöttu frá upphafi, og núna úr frummálunum, eins og í útgáfunni 1912/1914.

Þýtt var eftir frummálunum en við yfirferð studdust þýðingarnefndir Gamla og Nýja testamentisins — sem ákvörðuðu að lokum hver textinn skyldi vera — við eldri útgáfur íslenskar, sem og nýjar þýðingar frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og svo þýskar Biblíur, breskar og bandarískar. Nefndunum var gert að hafa að leiðarljósi trúmennsku við frumtextann og stíl hans, en jafnframt vandað og aðgengilegt nútímamál. Þá var ákveðið að nota að jafnaði tvítölumyndina við/okkur í sögutextum, beinni frásögn, lagatextum og prósa, en fleirtölumyndina vér/oss í litúrgískum textum, sálmum, bænum og ljóðum. Hvað Nýja testamentið áhrærir er textinn almennt í tvítölu nema ræður Jesú, orð engla og bænir og í bréfunum eru lofsöngvar í fleirtölu.

Að verkinu komu m.a. Árni Bergur Sigurbjörnsson (1941–2005), Einar Sigurbjörnsson (1944-2019), Guðrún Kvaran (1943), Gunnar Kristjánsson (1945), Gunnlaugur A. Jónsson (1952), Jón Rúnar Gunnarsson (1940–2013), Jón Sveinbjörnsson (1928), Sigurður Pálsson (1936-2019), Sigurður Örn Steingrímsson (1932–2002) og Þórir Kr. Þórðarson (1924–1995).

Í fyrsta sinn er reynt að koma hér á málfari beggja kynja. Oftast var t.d. fornafninu „þeir“ í Gamla testamentinu breytt í hvorugkyn, ef fullljóst var að um blandaðan hóp var að ræða, annars ekki. Svipað var upp á teningnum með Nýja testamentið, þar má nú víða lesa „systkin“ þar sem áður hefur staðið „bræður“.


Lýsing á Biblíu 21. aldar hér að ofan var skrifuð fyrir sýningarskrá sýningarinnar „Þann arf vér bestan fengum“ sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 26. september 2015. Textanum hefur verið lítillega breytt fyrir vefsíðuna.