Að jafnaði eru um 400 þýðingarverkefni í gangi á vegum Biblíufélaga um allan heim. 2/3 verkefnanna eru fyrstu þýðingar á Biblíunni á viðkomandi tungumál, en um þriðjungur eru nýjar þýðingar eða endurskoðun á eldri þýðingum.

Biblíuþýðingar eru ekki einfalt mál og margt sem þarf að hafa í huga. Ekki einungis erum við sífellt að fá betri skilning á upphaflega textanum, heldur breytist tungumálið okkar stöðugt. Hugtök sem flest skyldu í upphafi 19. aldar á Íslandi eru lítt skiljanleg í dag, og önnur hugtök hafa tekið við. Setningaskipan breytist og framsetning texta, ekki síst með tilkomu nýrra samskiptamiðla.

Þessar breytingar eru að sjálfsögðu ekki nýjar, þannig hafa nýþýðingar á Biblíunni verið gefnar út sex sinnum í heild á íslensku, í fyrsta sinn 1584. Nýjasta heildarþýðingin á íslensku kom út 2007.

Á Norðurlöndunum hefur farið fram mikil umræða um þýðingar á 21. öldinni, og danska Niblíufélagið gaf út nútímaþýðingu árið 2020, sem þau kalla samtímabiblíu. Við fjölluðum nokkuð um þá Biblíu hér á biblian.is sumarið 2020 [1,2,3,4]. En danska Biblíufélagið lagði m.a. áherslu á að endurþýða guðfræðileg hugtök sem höfðu tapað merkingu sinni, eða að hugtökin höfðu öðlast nýja merkingu sem passaði ekki lengur við Biblíutextann.

Þá gaf finnska biblíufélagið út Nýja testamentið í nýrri þýðingu 2020. Þar voru farnar nýjar og spennandi leiðir í þýðingarvinnunni, en megináherslan var á að tilbúin finnskur lesandi, Elísa, 21 árs hjúkrunarfræðinemi í Helsinki, gæti skilið textann. Jafnframt var leitað til yfir 3000 einstaklinga um að lesa textann yfir með hliðsjón af framsetningu og skiljanleika. Nánar má lesa um verkefnið á https://www.piplia.fi/briefly-in-english/.

Þá má nefna metnaðarfullt verkefni í tengslum við NRSV þýðingu Biblíunnar á ensku, sem hefur verið fjallað um hér á vefnum (https://biblian.is/2022/04/04/ensk-nrsv-thyding-bibliunnar-endurskodud/). En í stað þess að þýða Biblíuna í heild, var NRSV útgáfan endurskoðuð með tilliti til hugtakaskilnings í samtímanum og í ljósi nýrra rannsókna á eldri handritum. NRSV Updated Edition (NRSVue) kom út nú á liðnu sumri og inniheldur 12.000 breytingar á orðalagi.

Útgáfa Biblíu 21. aldarinnar í heild á íslensku er einungis 15 ára gömul, og ef við horfum til sögunnar, þá hefur að jafnaði komið út ein þýðing á rétt um 70 ára fresti. Á móti kemur að rannsóknum á eldri handritum hefur fleygt fram og þróun tungumálsins er hraðari en oft áður.

Á næstu 10-15 árum mun Hið íslenska biblíufélag þurfa að svara hvort, hvenær og hvernig á að ráðast í næstu Biblíuþýðingu eða endurskoðun á Biblíu 21. aldarinnar. Finnska biblíufélagið hefur bent á að þýðing Nýja testamentisins 2020, var bæði fljótlegri og ódýrari en fyrri þýðingar vegna nýrrar tækni og betri aðgangs að upplýsingum á netinu, en samt sem áður er um risavaxið verkefni að ræða fyrir lítið Biblíufélag.

 

Hægt er að kynna sér áhugaverða grein á ensku um Biblíuþýðingar á:

https://sojo.net/articles/what-s-difference-between-niv-nrsv-and-other-bible-translations