Það hafa vaknað ýmsar spurningar í tengslum við útgáfu danska Biblíufélagsins á Dönsku samtímabiblíunni 2020. Á næstu vikum munum við birta hér á Biblian.is nokkrar greinar frá danska Biblíufélaginu, þar sem ýmsum ákvörðunum við þýðingu dönsku samtímabiblíunnar verður velt upp. Birgitte Stocklund Larson, framkvæmdastjóri Danska biblíufélagsins, útskýrir hér villu sem fannst eftir að fyrsta prentun var gefin út.

Samtímabiblían 2020 hefur glögga lesendur. Einn þeirra hefur uppgötvað villu í textanum. Heimspekingurinn Peter Tudvad furðaði sig á því hvers vegna það segir í 88. Davíðssálmi og 19. versi: „Þú hefur tekið bæði vin og fjanda frá mér“, þegar í dönsku þýðingunni 1992 stendur: „Vin og frænda hefur þú tekið frá mér“. Getur sama hebreska orðið þýtt algjöra andstæðu?

Hér er rétt að nefna að  við og við getur komið fyrir, að hebresku samhljóðarnir segja eitt og sérhljóðatáknin annað. Ekki er þó um slíkt að ræða hér. Þetta er einfaldlega gremjuleg villa sem verður að sjálfsögðu leiðrétt í næstu prentun. Leiðrétta útgáfan í 19. versinu í heild er svohljóðandi: „Þú hefur tekið vini mína frá mér, öll mín nánustu — horfin í myrkrið!“

Meðan á þýðingarvinnunni stendur,  er textinn marglesinn og þaulkannaður af mörgu, ólíku fólki. Hvers vegna uppgötvaðist villan þá ekki fyrr? Þetta er lúmsk villa. Við sem lesendur höfum vanist orðaparinu „vinur og fjandi“, þannig að þegar við lesum það, þekkjum við það og trúum því að textinn sé réttur. En því miður var ekki svo. Textinn er betri í öllum sínum grimma raunveruleika.

Það eru rösklega 31.000 vers í allri Biblíunni og þrátt fyrir nokkuð góða aðferðafræði, greinendur og marga lesara geta orðið þýðingarvillur, í því rækilega ferli, sem biblíuþýðing er. Það má ekki gerast, en það gerist. Sú hefur orðið raunin með fyrri biblíuútgáfur og sú er einnig raunin með Biblíuna 2020. Við fögnum því, að glöggur lesandi hafi tekið eftir þessari villu, svo að við getum leiðrétt hana.

Þýðandi: Þorgils Hlynur Þorbergsson – https://www.bibelselskabet.dk/er-der-fejl-i-bibelen-2020 – Ljósmynd eftir Tanner Mardis á Unsplash