Biblían 1981

BIBLÍAN. HEILÖG RITNING. GAMLA TESTAMENTIÐ OG NÝJA TESTAMENTIÐ. NÝ ÚTGÁFA 1981. REYKJAVÍK. HIÐ ÍSLENSKA BIBLÍUFÉLAG.

Þetta var í grunninn Biblía 20. aldar (frá 1912) að öðru leyti en því, að hér voru guðspjöllin þýdd að nýju úr grísku. Blaðsíður eru 1.450.

Að verkinu komu m.a. Ásmundur Guðmundsson (1888–1969), Björn Magnússon (1904–1997), Guðmundur Sveinsson (1921–1997), Jóhann Hannesson (1910–1976), Jón Sveinbjörnsson (1928), Magnús Már Lárusson (1917–2006), Sigurbjörn Einarsson (1911– 2008), Þórir Kr. Þórðarson (1924–1995).

Ytri búningur var um margt frábrugðinn því sem áður tíðkaðist. Síður voru tvídálka (eins og að vísu í Steinsbiblíu 1734 og Lundúnabiblíunni 1866) og millifyrirsagnir og tíð greinaskil áttu að gera textann léttari og aðgengilegri. Þá var tekið upp nýtt tilvísunarkerfi, með lykilorðum neðanmáls, franskt að uppruna, þar sem bent var til sambærilegra ritningargreina um alla Biblíuna. Þá var ákveðið að fella niður „z“ og einnig fallbeygingar á nafninu „Jesús“. Í viðbæti aftast voru svo nokkrar orðskýringar og landakort, auk þess sem var að finna kynningu á ritum Biblíunnar og skrá yfir mikilvæga ritningarstaði. Og að síðustu má nefna að pappír var hafður kremlitaður, til að lesendur þreyttust síður í augum.

Biblían 1981 var prentuð margsinnis og í gríðarlegu upplagi frá útgáfuári og þar til sú nýjasta kom út, 2007.


Lýsingin á þýðingunni frá 1981 hér að ofan var skrifuð fyrir sýningarskrá sýningarinnar „Þann arf vér bestan fengum“ sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 26. september 2015.