Við höldum áfram að fjalla um útgáfu danska Biblíufélagsins á Dönsku samtímabiblíunni 2020. Við höfum nú þegar birt hér á síðunni nokkrar greinar frá danska Biblíufélaginu, þar sem ýmsum ákvörðunum við þýðingu dönsku samtímabiblíunnar er velt upp. Guðfræðingurinn, presturinn og ritstjóri Biblíunnar 2020, Cecilie Ahlmann Raaberg, útskýrir hér hvers vegna Orðið „náð“ er ekki að finna í nýju, dönsku biblíuþýðingunni. 

Ýmsir áhugasamir Danir hafa spurt hvers vegna náðin hafi horfið úr Biblíunni 2020. Og það er rétt, að gríska orðið „kharis“ í Biblíunni 2020 er ekki þýtt sem „náð“ (nåde), eins og annars er vaninn í hefðbundnu, dönsku biblíumáli.

Hvers vegna?

Það er vegna þess að fæstir nýir lesendur Biblíunnar — og ef til vill einhverjir hinna reyndari — vita hreinlega hvað orðið „náð“ þýðir. Ef maður þekkir ekki orðið, þá þarf að þýða það úr kirkjudönsku yfir á nútímadönsku til þess að skilja það.

Segja má, að í Biblíunni 2020 sé þessari þýðingarvinnu sinnt fyrir lesandann. Ef maður þekkir orðið og veit hvað það þýðir, getur þetta virst einum of mikið. En markmiðið með Biblíunni 2020 er að öllum gefist kostur á að skilja boðskap Biblíunnar — ekki síst um náð Guðs.

Hvað þýðir þá „kharis“, sem samkvæmt hefðinni er þýtt sem „náð“?

Merking orðsins „kharis“ er fjölþættari en svo að það sé fullnægjandi að þýða það með einu orði og þess vegna er það þýtt með mismunandi hætti í Biblíunni 2020. Má þar nefna þýðinguna „gjafir Guðs“, eitthvað „sem við höfum fengið án þess að verðskulda það“, eða eitthvað „sem við höfum fengið gefins“, þá er það þýtt sem „kærleikur Guðs“ eða „fyrirgefning Guðs“.

Hér má sjá nokkur dæmi um nýja sáttmálann í Biblíunni 2020 í beinni þýðingu Þorgils Hlyns Þorbergssonar.

  • Róm 3.24: Samt tekur Guð á móti okkur — það er hrein gjöf, og þrátt fyrir að við höfum alls ekki verðskuldað það. Það gerist, vegna þess að Jesús hefur keypt okkur frjáls.
  • Róm 5.2: Í gegnum trúna á Guð getum við gengið að öllu því sem hann gefur okkur alveg óverðskuldað. Út frá því göngum við nú og við erum stolt af því að lifa í von um að Guð muni frelsa okkur.
  • 2Kor 6.2: Við biðjum ykkur um að sjá til þess, að það hafi ekki verið til einskis, að þið hafið fengið fyrirgefningu hans.
  • 1Pét 5.12: Ég hef skrifað þetta til þess að uppörva ykkur og segja ykkur, að Guð elskar ykkur heitt. Það skuluð þið halda ykkur fast við.
  • 1Kor 15.10: En Guð fyrirgaf mér og gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Það traust sem hann sýndi mér, hefur ekki verið til einskis. Þvert á móti hef ég lagt ennþá harðar að mér en nokkur annar, jafnvel þótt í alvörunni hafi það vissulega ekki verið ég, sem hef unnið, heldur Guð, sem hefur unnið ásamt mér.
Þýðandi: Þorgils Hlynur Þorbergsson – https://www.bibelselskabet.dk/bibelen-2020-hvor-blev-naaden-af – Ljósmynd eftir Matthew Henry á Unsplash