Í ágúst 2022 kemur út endurskoðuð útgáfa New Revised Standard þýðingarinnar (NRSV) á Biblíunni með nærri 12.000 breytingum á orðalagi, Útgáfan endurspeglar rannsóknir fræðifólks sem hafa síðustu fjögur ár, rannsakað biblíutextann með tilliti til hugtakaskilnings í samtímanum. Nýja útgáfan er kölluð NRSV Updated Edition, eða NRSVue.

NRSV þýðing Biblíunnar er sú Biblíuþýðing í Bandaríkjunum sem er almennt notuð í hefðbundnum (e. Mainline) kirkjudeildum og í rómversk katólsku kirkjunni. Þýðingin kom út 1989 og var þýðingin gefin út af Samkirkjuráði kirkna í Bandaríkjunum (National Council of Churches).

Meðal breytinga í upfærðu útgáfunni má nefna að í Galatabréfinu þar sem áður var talað um kvenþræl verður nú talað um konu hneppta í þrældóm, og eins verður talað um töframenn (e. Magi) í stað vitringa (e. Wise Men) í Matteusarguðspjalli. Þá er hugtakið syndafórn, í 3. Mósebók, leiðrétt þegar það á við og þess í stað talað um hreinsunarfórn.

Ekki er um að ræða nýja þýðingu á textanum heldur endurskoðun textans í ljósi nýjustu þekkingar og rannsókna á þróun enskrar tungu og nýjum textauppgötvunum, meðal annars í tengslum við rannsóknir á Dauðahafshandritunum. Þannig hefur verið bætt við 25 orðum í umfjöllun um Davíð í Fyrstu Konungabók sem hefur vantað í mörg eldri handrit.

Við endurskoðun textans var leitað til fjölbreyttari hóps en áður, og tryggt að raddir mismunandi samfélagshópa og málskilningur þeirra væri hafður til hliðsjónar við verkefnið. Þannig var reynt að koma í veg fyrir að sú einsleitni sem oft var á þýðingarteymum fortíðar hefði áhrif á framsetningu textans.

Dæmi um slíkt má til dæmis sjá í því að í upprunalegu NRSV þýðingunni var ákveðið að hafa ekki stóran staf í nöfnum á gyðinglegum helgidögum, sem má túlka sem vanvirðingu við gyðinglegar hefðir. Úr þessu verður bætt. Á sama hátt verður ekki notast við orðið stúlka (e. girl) í endurskoðun textans þegar átt er við unga konu. Þannig verður í nýju endurskoðuðu útgáfunni talað um kvenkyns þjón í Mark 14:69 í stað þjónustustúlku.

NRSVue er væntanleg eins og áður sagði í ágúst næstkomandi. En nú þegar er hægt að kaupa texta nýju útgáfunnar á Biblíuappi sem kallast Word@Hand.