Biblíulestur – 3. október – 5Mós 20.1–14
Þegar þú ferð í hernað gegn fjandmönnum þínum og sérð hesta, hervagna og her sem er fjölmennari en þinn skaltu ekki óttast þá því að Drottinn, Guð þinn, er með þér, hann sem leiddi þig frá Egyptalandi. Þegar þið eruð í þann veginn að leggja til orrustu skal presturinn ganga fram, ávarpa herinn og segja: „Heyr, Ísrael. Í dag leggið þið til orrustu gegn fjandmönnum ykkar. Látið ekki hugfallast, óttist ekki, skelfist hvorki né hræðist andspænis þeim því að Drottinn, Guð ykkar, er með í för til að berjast fyrir ykkur við fjandmenn ykkar og veita ykkur sigur.“
Því næst eiga eftirlitsmennirnir að ávarpa herinn og segja: „Hver sá sem byggt hefur nýtt hús en ekki vígt það enn skal fara og snúa aftur heim til sín svo að hann falli ekki í orrustunni og einhver annar vígi það. Hver sá sem plantað hefur víngarð en hefur enn engar nytjar haft af honum skal snúa aftur heim til sín svo að hann falli ekki í orrustunni og einhver annar njóti uppskerunnar. Hver sá sem hefur fastnað sér konu en hefur ekki enn tekið saman við hana skal fara og snúa aftur heim til sín svo að hann falli ekki í orrustunni og einhver annar gangi að eiga hana.“
Enn fremur skulu eftirlitsmennirnir bæta við ávarpið til hersins og segja: „Hver sá maður, sem er hræddur og hugdeigur, skal fara héðan og snúa aftur heim til sín svo að bræðrum hans fallist ekki hugur eins og honum.“
Þegar eftirlitsmennirnir hafa lokið ávarpi sínu til hersins skulu fyrirliðar skipaðir og þeir taka við stjórn. Þegar þú býst til að herja á borg skaltu fyrst bjóða henni friðarskilmála. Ef hún gengur að þeim og lýkur hliðum sínum upp fyrir þér skulu allir borgarbúar vinna fyrir þig kvaðavinnu og gerast lýðskyldir þér. En hafni hún því að gera við þig friðarsáttmála og kjósi að heyja við þig orrustu skalt þú setjast um hana. Þegar Drottinn, Guð þinn, gefur þér hana á vald skaltu höggva allt karlkyns þar með sverðseggjum. Þú mátt hins vegar taka að herfangi konur, börn og búfé og allt annað sem í borginni er og þú getur rænt. Þú mátt nýta þér herfangið sem þú hefur tekið af fjandmönnum þínum því að Drottinn, Guð þinn, hefur gefið þér það.
Biblíulestur – 21. mars – 1Kor 1.18–31
Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna og hyggindi hyggindamannanna [...]
Biblíulestur – 20. mars – 1Kor 1.1–17
Páll, sem Guð kallaði til að vera postuli Jesú Krists, og Sósþenes, bróðirinn, heilsa söfnuði Guðs í Korintu, þeim sem Guð hefur helgað í samfélagi við Jesú Krist og kallað [...]
Biblíulestur – 19. mars – Jóh 6.52–71
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“ Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér [...]
Biblíulestur – 18. mars – Jóh 6.30–51
Þeir spurðu hann þá: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur svo að við trúum? Hvað afrekar þú? Feður okkar átu manna í eyðimörkinni eins og ritað er: Brauð af himni [...]
Biblíulestur – 17. mars – Jóh 6.16–29
Þegar kvöld var komið fóru lærisveinar Jesú niður að vatninu, stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaúm. Myrkur var skollið á og Jesús var [...]
Biblíulestur – 16. mars – Matt 15.21–28
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af [...]