Biblíulestur – 13. október – 5Mós 23.10–24
Sé einhver með þér sem ekki er hreinn vegna þess sem hefur hent hann um nóttina skal hann ganga út fyrir herbúðirnar og má ekki inn í þær koma. Að áliðnum degi skal hann lauga sig í vatni og þegar sól er sest má hann koma inn í herbúðirnar.
Þú skalt hafa afvikinn stað utan við herbúðirnar þar sem þú getur gengið erinda þinna. Þú skalt hafa skóflu í farangri þínum og þegar þú þarft að setjast niður úti við skaltu grafa með henni holu og moka síðan yfir hægðir þínar. Drottinn, Guð þinn, gengur um í herbúðunum til að vernda þig og selja óvini þína í hendur þér. Þess vegna skulu herbúðir þínar vera heilagar svo að hann sjái ekkert andstyggilegt hjá þér og snúi frá þér.
Þú skalt ekki selja þann þræl í hendur húsbónda sínum sem flúið hefur frá honum til þín. Hann skal búa hjá þér, mitt á meðal þjóðar þinnar, hvar sem hann vill í þeirri af borgum þínum sem hann lystir. Þú mátt ekki beita hann ofríki.
Engin ísraelsk kona má helga sig saurlifnaði né heldur neinn ísraelskur karl. Þú mátt hvorki bera skækjulaun né hundsgjald inn í hús Drottins, Guðs þíns, til þess að efna eitthvert heit því að hvort tveggja er Drottni, Guði þínum, viðurstyggð.
Þú skalt ekki taka vexti af bróður þínum, hvorki vexti af fé, matvælum né neinu sem lánað er. Þú mátt taka vexti af útlendingi en ekki af bróður þínum svo að Drottinn, Guð þinn, blessi þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur í landinu sem þú heldur nú inn í til að taka það til eignar.
Þegar þú vinnur Drottni, Guði þínum, heit máttu ekki draga að efna það því að ella mun Drottinn, Guð þinn, krefjast þess af þér og það reiknast þér til syndar. En látir þú það vera að vinna heit reiknast það þér ekki til syndar.
Þú skalt efna það sem hefur þér um munn farið og gera það af fúsum og frjálsum vilja sem þú hést Drottni, Guði þínum, með eigin vörum. Þegar þú kemur inn í víngarð í eigu annars manns mátt þú neyta vínberja eins og þig lystir þar til þú ert mettur orðinn en ekkert máttu setja í ílát.
Biblíulestur – 20. maí – Jóh 10.22–42
Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur. Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum. Þá söfnuðust menn um hann og sögðu: „Hve lengi lætur þú okkur í óvissu? [...]
Biblíulestur – 19. maí – Jóh 10.1–21
„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi en sá sem kemur inn um [...]
Biblíulestur – 18. maí – Jóh 16.5–15
Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu af því ég var með yður. En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer [...]
Biblíulestur – 17. maí – Slm 101.1–8
Davíðssálmur. Ég vil syngja um náð og rétt, lofsyngja þér, Drottinn. Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda, hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga [...]
Biblíulestur – 16. maí – 1Kor 16.1–24
Hvað samskotin til hinna heilögu í Jerúsalem snertir, þá skuluð einnig þið fara með þau eins og ég hef fyrirskipað söfnuðunum í Galatíu. Hvern fyrsta dag vikunnar skal hvert ykkar [...]
Biblíulestur – 15. maí – 1Kor 15.42–58
Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu en upp rís óforgengilegt. Sáð er í vansæmd en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika en upp rís í [...]