Biblíulestur – 14. júlí – 5Mós 4.14–31
Þá bauð Drottinn mér að kenna ykkur lög og ákvæði til að fylgja í landinu sem þið haldið nú inn í til að slá eign ykkar á.
En gætið ykkar vel því að líf ykkar liggur við. Þið sáuð ekki mynd neins daginn sem Drottinn ávarpaði ykkur úr eldinum við Hóreb. Steypið ykkur því ekki í glötun með því að gera ykkur skurðgoð í einhverri mynd, hvorki í mynd karls né konu. Gerið enga mynd í líki nokkurs dýrs á jörðu eða í líki nokkurs vængjaðs fugls sem um loftið flýgur eða í líki nokkurs kvikindis sem skríður á jörðu eða í líki nokkurs fisks í vatninu undir jörðinni. Þegar þú hefur augu þín til himins og sérð sólina, tunglið, stjörnurnar, allan himinsins her, láttu þá ekki blekkjast til að sýna þeim lotningu og þjóna þeim. Drottinn, Guð þinn, hefur veitt öllum þjóðum undir himninum hlutdeild í þeim.
En ykkur hefur Drottinn tekið að sér og leitt ykkur út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, til þess að þið yrðuð eignarþjóð hans eins og þið eruð í dag. Drottinn reiddist mér að vísu vegna ykkar. Hann sór að ég skyldi ekki fara yfir Jórdan, að ég skyldi ekki komast inn í landið góða sem Drottinn, Guð ykkar, gefur þér að erfðahlut. Ég verð að deyja í þessu landi, ég fer ekki yfir Jórdan. En þið farið yfir hana og takið þetta góða land til eignar.
Gætið ykkar og gleymið ekki sáttmálanum sem Drottinn, Guð ykkar, gerði við ykkur. Þið megið ekki gera ykkur skurðgoð í líki neins þess sem Drottinn, Guð þinn, hefur bannað þér, því að Drottinn, Guð þinn, er eyðandi eldur, afbrýðisamur Guð.
Þegar þú hefur eignast börn og barnabörn og þið hafið sest að í landinu, steypið ykkur þá ekki í glötun með því að gera skurðgoð í einhverri mynd. Með því gerið þið það sem illt er í augum Drottins, Guðs ykkar, og vekið heift hans. Nú í dag kalla ég himin og jörð til vitnis gegn ykkur um að ykkur verður þá brátt eytt úr landinu sem þið eruð á leiðinni til þegar þið farið yfir Jórdan til að taka það til eignar. Þá munuð þið ekki búa þar lengi heldur verður ykkur eytt. Drottinn mun dreifa ykkur meðal framandi þjóða og aðeins örfáir ykkar munu komast af meðal þjóðanna sem Drottinn flytur ykkur til. Þar munuð þið þjóna guðum, handaverkum manna, stokkum og steinum sem hvorki sjá né heyra, eta né finna lykt. Þar munt þú leita Drottins, Guðs þíns, og þú munt finna hann ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni.
Í neyð þinni mun allur þessi boðskapur ná eyrum þínum, á komandi tímum munt þú snúa aftur til Drottins, Guðs þíns, og hlýða boðum hans. Því að Drottinn, Guð þinn, er miskunnsamur Guð. Hann bregst þér ekki og lætur þig ekki farast. Hann gleymir ekki sáttmálanum við feður þína sem hann staðfesti með eiði.
Biblíulestur – 4. apríl – 1Kor 7.29–40
En það segi ég, systkin, tíminn er orðinn naumur. Hér eftir skulu jafnvel þau sem gift eru vera eins og þau væru það ekki, þau sem gráta eins og þau [...]
Biblíulestur – 3. apríl – 1Kor 7.17–28
Þó skal hver og einn lifa því lífi sem Drottinn hefur úthlutað honum og vera áfram í þeirri stöðu sem hann var í þegar Guð kallaði hann. Þannig mæli ég [...]
Biblíulestur – 2. apríl – 1Kor 7.1–16
En svo að ég minnist á það sem þið hafið ritað, þá er það gott fyrir mann að vera ekki við konu kenndur. En til þess að forðast saurlífi hafi [...]
Biblíulestur – 1. apríl – 1Kor 6.1–20
Hvernig getur nokkur ykkar, sem á sökótt við annan, fengið af sér að fara með málið fyrir dóm ranglátra en ekki heilagra? Eða vitið þið ekki að heilagir eiga að [...]
Biblíulestur – 31. mars – 1Kor 5.1–13
Fullyrt er að saurlifnaður eigi sér stað á meðal ykkar og það slíkur saurlifnaður sem jafnvel gerist ekki meðal heiðingja, að maður heldur við konu föður síns. Og svo eruð [...]
Biblíulestur – 30. mars – Jóh 6.1–15
Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á [...]