Biblíulestur 14. janúar – Esk 1.15–28
Þegar ég horfði á verurnar sá ég eitt hjól á jörðinni við hliðina á hverri af verunum fjórum. Þessi hjól virtust vera gerð úr ljómandi krýsólítsteini og öll voru þau eins að sjá. Þau voru þannig gerð að eitt virtist vera innan í öðru. Hjólin gátu snúist í allar fjórar áttir án þess að breyta um stefnu þegar þau snerust. Á þeim voru hjólgjarðir og sá ég að allar fjórar voru alsettar augum allt um kring. Þegar verurnar gengu snerust hjólin við hlið þeirra og þegar verurnar hófu sig upp frá jörðinni hófust hjólin einnig. Þær gengu þangað sem andinn vildi að þær gengju og hjólin hófust um leið og þær því að andi veranna var í hjólunum. Þegar þær gengu snerust þau og þegar þær námu staðar staðnæmdust þau einnig og þegar verurnar hófu sig frá jörðu lyftust hjólin um leið og þær því að andi veranna var í hjólunum.
Yfir höfðum veranna var eitthvað sem líktist hellu og ljómaði eins og ógnvekjandi kristall sem þandist út yfir höfðum þeirra. Undir hellunni voru vængir þeirra þandir út svo að þeir snertu hver annan og hver vera um sig hafði tvo vængi sem huldu líkama hennar.
Þegar verurnar hreyfðu sig heyrði ég þytinn frá vængjum þeirra. Hann líktist nið mikilla vatna, þrumuraust Hins almáttka, háum hrópum og gný frá herbúðum. En þegar þær námu staðar létu þær vængina síga. Fyrir ofan helluna yfir höfðum þeirra heyrðist þytur en þegar þær staðnæmdust létu þær vængina síga.
Ofan við helluna yfir höfðum þeirra var eitthvað sem leit út eins og safír, eitthvað sem líktist hásæti og í því sem líktist hásæti sat einhver sem virtist vera í mannsmynd. Ég sá að frá því sem virtist vera lendar hans og upp úr var eitthvað sem líktist glóandi hvítagulli en frá lendum hans og niður úr var hann sem eldur og lagði skæran bjarma af allt umhverfis og frá honum stafaði geislaflóð líkast regnboga í skýjum á votviðrisdegi. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Þegar ég sá hana féll ég fram á ásjónu mína til jarðar. Þá heyrði ég rödd einhvers sem talaði.
Biblíulestur 8. janúar – Kól 2.20–3.11
Fyrst þið dóuð með Kristi og eruð laus undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þið ykkur þá eins og þið lifðuð lífi þessa heims og látið leggja fyrir ykkur boð [...]
Biblíulestur 7. janúar – Kól 2.6–19
Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. Verið rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, eins og ykkur hefur verið kennt, og [...]
Biblíulestur 6. janúar – Matt 2.1–12
Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans [...]
Biblíulestur 5. janúar – Kól 1.24–2.5
Nú er ég glaður í þjáningum mínum ykkar vegna og uppfylli með þjáningum líkama míns það sem enn vantar á þjáningar Krists til heilla fyrir líkama hans, kirkjuna. Hennar þjónn [...]
Biblíulestur 4. janúar – Matt 2.13–15
Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi [...]
Biblíulestur 3. janúar – Slm 111.1–10
Hallelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta í félagi og söfnuði réttvísra. Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum er hafa unun af þeim. Tign og vegsemd eru verk [...]