Daglegur lestur2025-02-09T12:28:07+00:00

Biblíulestur – 11. apríl – 1Kor 10.19–11.1

Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð? Nei, skurðgoðadýrkendur blóta illum öndum, ekki Guði. En ég vil ekki að þið hafið samfélag við illa anda. Ekki getið þið drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þið tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda. Eða eigum við að reita Drottin til reiði? Munum við vera máttugri en hann?
Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp. Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.
Allt það sem selt er á kjöttorginu getið þið etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar. Því að jörðin er Drottins og allt sem á henni er.
Ef einhver vantrúaður býður ykkur og ef þið viljið fara, þá etið af öllu því sem fyrir ykkur er borið án þess að þið vegna samviskunnar spyrjist fyrir um hvaðan það komi. En ef einhver segir við ykkur: „Þetta er fórnarkjöt!“ þá etið ekki, bæði vegna þess sem varaði ykkur við og vegna samviskunnar. Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi samviska annars manns geta heft frelsi mitt? Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það sem ég þakka Guði fyrir?
Hvort sem þið því etið eða drekkið eða hvað sem þið gerið, þá gerið það allt Guði til dýrðar. Verið hvorki Gyðingum, Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar. Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.
Breytið eftir mér eins og ég breyti eftir Kristi.

Fara efst