1Í Samaríu voru sjötíu synir Akabs. Og Jehú skrifaði bréf og sendi þau til Samaríu til höfðingja borgarinnar og til öldunganna og þeirra, sem fóstruðu sonu Akabs. Þau voru á þessa leið:2Þá er þér fáið þetta bréf, þér sem hafið hjá yður sonu herra yðar og hafið yfir að ráða vögnum og hestum, víggirtum borgum og hervopnum,3þá veljið hinn besta og hæfasta af sonum herra yðar og setjið hann í hásæti föður síns og berjist fyrir ætt herra yðar.4Þeir urðu mjög hræddir og sögðu: Sjá, tveir konungar fengu eigi reist rönd við honum, hvernig skyldum vér þá fá staðist?5Þá sendu þeir dróttseti, borgarstjóri, öldungarnir og fóstrarnir til Jehú og létu segja honum: Vér erum þínir þjónar, og vér viljum gjöra allt, sem þú býður oss. Vér munum engan til konungs taka. Gjör sem þér vel líkar.6Þá skrifaði hann þeim annað bréf á þessa leið: Ef þér viljið fylgja mér og hlýða skipun minni, þá takið höfuðin af sonum herra yðar og komið til mín í þetta mund á morgun til Jesreel. En synir konungsins, sjötíu manns, voru hjá stórmennum borgarinnar, er ólu þá upp.7En er bréfið kom til þeirra, tóku þeir konungssonu og slátruðu þeim, sjötíu manns, og lögðu höfuð þeirra í körfur og sendu honum til Jesreel.8Og er sendimaður kom og sagði Jehú, að þeir væru komnir með höfuð konungssona, þá sagði hann: Leggið þau í tvær hrúgur úti fyrir borgarhliðinu til morguns.9En um morguninn fór hann út þangað, gekk fram og mælti til alls lýðsins: Þér eruð saklausir. Sjá, ég hefi hafið samsæri í gegn herra mínum og drepið hann, en hver hefir unnið á öllum þessum?10Kannist þá við, að ekkert af orðum Drottins hefir fallið til jarðar, þau er hann talaði gegn ætt Akabs. Drottinn hefir framkvæmt það, er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía.11Og Jehú drap alla þá, er eftir voru af ætt Akabs í Jesreel, svo og alla höfðingja hans, vildarmenn og presta, svo að enginn varð eftir, sá er undan kæmist.12Síðan tók Jehú sig upp og fór til Samaríu. Og er hann kom til Bet Eked Haróím við veginn,13þá mætti hann bræðrum Ahasía Júdakonungs og sagði: Hverjir eruð þér? Þeir svöruðu: Vér erum bræður Ahasía og ætlum að heimsækja konungssonu og sonu konungsmóður.14Þá sagði hann: Takið þá höndum lifandi. Og þeir tóku þá höndum lifandi og slátruðu þeim og fleygðu þeim í gryfjuna hjá Bet Eked, fjörutíu og tveimur mönnum, og var enginn af þeim eftir skilinn.15Og er hann fór þaðan, hitti hann Jónadab Rekabsson, er kom í móti honum. Hann heilsaði honum og sagði við hann: Ert þú einlægur við mig, eins og ég er við þig? Jónadab svaraði: Svo er víst. Þá mælti Jehú: Ef svo er, þá rétt mér hönd þína. Þá rétti hann honum hönd sína, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín16og mælti: Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna Drottins. Síðan lét hann hann fara með sér á vagni sínum.17Og er hann var kominn til Samaríu, drap hann alla, er eftir voru af Akabsætt í Samaríu, uns hann hafði gjöreytt þeim, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað til Elía.18Því næst stefndi Jehú saman öllum lýðnum og sagði við þá: Akab dýrkaði Baal slælega, Jehú mun dýrka hann betur.19Kallið því til mín alla spámenn Baals, alla dýrkendur hans og alla presta hans. Engan má vanta, því að ég ætla að halda blótveislu mikla fyrir Baal. Skal enginn sá lífi halda, er lætur sig vanta. En þar beitti Jehú brögðum til þess að tortíma dýrkendum Baals.20Og Jehú sagði: Boðið hátíðasamkomu fyrir Baal. Þeir gjörðu svo.21Og Jehú sendi um allan Ísrael. Þá komu allir dýrkendur Baals, svo að enginn var eftir, sá er eigi kæmi. Og þeir gengu í musteri Baals, og musteri Baals varð fullt enda á milli.22Síðan sagði hann við umsjónarmann fatabúrsins: Tak út klæði handa öllum dýrkendum Baals. Og hann tók út klæði handa þeim.23Síðan gekk Jehú og Jónadab Rekabsson með honum í musteri Baals, og hann sagði við dýrkendur Baals: Gætið að og lítið eftir, að eigi sé hér meðal yðar neinn af þjónum Drottins, heldur dýrkendur Baals einir.24Síðan gekk hann inn til þess að færa sláturfórnir og brennifórnir. En Jehú hafði sett áttatíu manns fyrir utan dyrnar og sagt: Hver sá er lætur nokkurn af mönnum þeim, er ég fæ yður í hendur, sleppa undan, hann skal láta sitt líf fyrir hans líf.25Þegar Jehú hafði lokið við að færa brennifórnina, sagði hann við varðliðsmennina og riddarana: Gangið inn og brytjið þá niður, enginn má út komast. Og þeir brytjuðu þá niður með sverði og köstuðu þeim út. Og varðliðsmennirnir og riddararnir ruddust alla leið inn í innhús Baalsmusterisins26og tóku asérurnar út úr musteri Baals og brenndu þær.27Og þeir rifu niður merkisstein Baals, rifu síðan musteri Baals og gjörðu úr því náðhús, og er svo enn í dag.28Þannig útrýmdi Jehú allri Baalsdýrkun í Ísrael.29En af syndum Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, af þeim lét Jehú ekki dýrkun gullkálfanna í Betel og í Dan.30Og Drottinn sagði við Jehú: Með því að þú hefir leyst vel af hendi það, er rétt var í mínum augum, og farið alveg mér að skapi með ætt Akabs, þá skulu niðjar þínir í fjórða lið sitja í hásæti Ísraels.31En Jehú hirti eigi um að breyta eftir lögmáli Drottins, Ísraels Guðs, af öllu hjarta sínu. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.32Um þessar mundir byrjaði Drottinn að sneiða af Ísrael. Hasael vann sigur á þeim á öllum landamærum Ísraels.33Frá Jórdan austur á bóginn lagði hann undir sig allt Gíleaðland, Gaðíta, Rúbeníta og Manassíta, frá Aróer, sem er við Arnoná, bæði Gíleað og Basan.34En það sem meira er að segja um Jehú og allt, sem hann gjörði, og öll hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.35Og Jehú lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var hann grafinn í Samaríu. Og Jóahas sonur hans tók ríki eftir hann.36En sá tími, er Jehú ríkti yfir Ísrael í Samaríu, voru tuttugu og átta ár.

10.1 Bréf 2Kon 5.5-7; 19.14
10.5 Hallarráðsmaður 1Kon 4.6
10.7 Ógæfa yfir konungsættinni 1Kon 14.10+
10.8 Afhöggvin höfuð 1Sam 17.51,54; 31.9-10; 2Sam 4.7-8
10.11 Morð í Jesreel Hós 1.4
10.18 Dýrkaði Baal 1Kon 16.31-32
10.19 Spámenn Baals 1Kon 18.19-40
10.21 Musterið fylltist sbr Matt 22.10
10.22 Klæði sbr Matt 22.11
10.24 Gjalda fyrir líf 1Kon 20.39-42
10.27 Náðhús sbr Dan 2.5; Esr 6.11